Innlent

Smitberinn kom til Íslands frá Filippseyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um var að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect. Myndin er frá Reykjavíkurflugvelli.
Um var að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect. Myndin er frá Reykjavíkurflugvelli. Vísir/vilhelm
Einstaklingur með smitandi mislinga kom til Íslands frá Filippseyjum 14. febrúar síðastliðinn. Hann ferðaðist með vélum Icelandair frá London til Keflavíkur og síðan Air Iceland Connect frá Reykjavík til Egilsstaða 15. febrúar. Smitin tvö sem tilkynnt var um í vélunum eru því rakin til sama einstaklingsins, að því er fram kemur í frétt á vef Landlæknisembættisins.

„Icelandair og Air Iceland Connect, í samvinnu við sóttvarnalækni, hafa sent farþegum ofangreindra véla nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar. Einnig hefur verið haft samband við þá sem hann hefur umgengst þessa daga eftir komuna til landsins og upplýsingum miðlað til heilbrigðisstofnana með áherslu á starfsmenn heilsugæslunnar,“ segir í frétt embættisins.

Um var að ræða flug FI455 með Icelandair og flug NY356 með Air Iceland Connect. Sóttvarnarlæknir beinir því til farþega að leita til sinna lækna fram til 7. mars næstkomandi finni þeir fyrir einkennum sem geta bent til mislinga, sérstaklega ef þeir eru óbólusettir.

„Einstaklingur er smitandi einungis eftir að einkenni koma fram og er smitandi í 7−10 daga. Einkenni mislinga koma yfirleitt fram 10–14 dögum eftir smit en að hámarki geta liðið 3 vikur,“ segir í frétt Landlæknisembættisins.

Einkenni sjúkdómsins eru m.a. hár hiti, hóstaköst, nefrennsli, særindi í augum, viðkvæmni fyrir birtu og rauð útbrot sem geta varað í allt að viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×