Útlit er fyrir metnotkun á heitu vatni um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum en Vísir hefur undanfarna daga fjallað um hálfgert neyðarástand sem skapaðist; tilfinnanlegur skortur á heitu vatni var fyrirsjáanlegur.
Heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist aftur eftir að hún fór minnkandi frá hádegi í gær. Í veðurkortum er gert ráð fyrir talsverðu frosti í nótt og á morgun. Á sunnudag gera veðurfræðingar ráð fyrir því að heldur dragi úr frosti og þá gæti farið að snjóa.
Veitur gera ráð fyrir að heitavatnsrennslið nái nýju hámarki um helgina og verði þá enn þá meira en nú í vikunni.
„Enn er því starfað eftir viðbragðsáætlun og fólk er enn beðið að fara vel með heita vatnið. Ekki hefur þurft að draga úr afhendingu á heitu vatni til stórnotenda, eins og sundlauga, á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ólöf Snæhólm upplýsingafulltrúi Veitna.
Ljóst er þó að lítið má út af bera í rekstrinum og þá gæti vel til þess komið. Veitur hafa þurft að draga úr afhendingu á heitu vatni til stærri notenda í Rangárþingi og Ölfusi. Vonast er til að þar rætist úr eftir helgi.
Stefnir í metnotkun á heitu vatni

Tengdar fréttir

Dregið hefur úr aukningu notkunar heits vatns
Veitu segja góðar viðtökur hafi fengist við áskorun til íbúa um að fara vel með heita vatnið en þó sé ekki hægt að fullyrða aðgerðir viðskiptavina séu farnar að skila sér.

Segir að kuldinn geti ekki talist mikill og því viti það varla á gott að Veitum sé brugðið
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, fjallar um kuldann sem verið hefur undanfarna daga á höfuðborgarsvæðinu, og víðar, á bloggsíðu sinni Hungurdiskum og segir að kuldinn geti varla talist mikill.

Mögulegt að heita vatnið skili sér ekki í laugarnar á föstudag
Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda Veitna á föstudag.

Notkun heits vatns hefur aukist meira hlutfallslega en nemur fjölgun íbúa
Þróunin varð til þess að farið var fyrr í stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun.