Innlent

Segir halla á önnur hverfi þar sem miðbærinn fékk mest jólaskraut

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Oslóartréð á Austurvelli.
Oslóartréð á Austurvelli. Fréttablaðið/Vilhelm
Af þeim ríflega 45 milljónum króna sem Reykjavíkurborg varði í skreytingar fyrir jólin 2017 fóru 32,5 milljónir, eða ríflega 72 prósent, í miðbæinn.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir hversu hátt hlutfall fór í skreytingar í miðbænum og minnir stjórnendur á að í borginni séu fleiri hverfi.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi og áheyrnarfulltrúi í borgarráði, lagði í síðasta mánuði fram fyrirspurn þar sem hún óskaði eftir sundurliðun á jólaskreytingum eftir hverfum borgarinnar. Kolbrún segir að nokkrir borgarbúar hafi farið þess á leit við hana að hún óskaði eftir þessum upplýsingum.

Í svari borgarinnar í borgarráði á fimmtudag kemur fram að það kostaði tæpar 32,6 milljónir króna að setja upp jólalýsingu í miðbænum og taka niður árið 2017.

Á sama tíma var kostnaðurinn aðeins rúmar 40 þúsund krónur á Kjalarnesi, tæpar sex milljónir í Austurbænum og tæpar 6,5 milljónir í Vesturbænum.

Kolbrún bókaði að þrátt fyrir að jólaskreytingar væru skemmtilegar og ekki gaman að vera agnúast út í þær þá væri þetta há upphæð.

„Í þessu sambandi vill áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins minna á að ætíð skal gæta hófs, hagkvæmni og útsjónarsemi þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa. Það stingur einnig nokkuð í augu í þessu svari hversu stórt hlutfall það er sem fer í skreytingar í miðbænum. Í borginni eru fleiri hverfi,“ segir Kolbrún enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×