Erlent

21 Savage handtekinn, grunaður um að vera breskur

Andri Eysteinsson skrifar
21 Savage, til vinstri, ásamt rapparnum Post Malone, sem er líklega ekki í sama veseni.
21 Savage, til vinstri, ásamt rapparnum Post Malone, sem er líklega ekki í sama veseni. EPA/Jason Szenes
„Bandaríski“ rapparinn Shayaa Bin Abraham-Joseph, betur þekktur sem 21 Savage, var samkvæmt frétt BBC handtekinn af innflytjendastofnun Bandaríkjanna (ICE).

Abraham-Joseph var handtekinn vegna gruns um að hann væri í raun og veru ekki bandarískur ríkisborgari og hefði þar af leiðandi ekki landvistarleyfi. 21 Savage hefur haldið því fram að hann sé frá borginni Atlanta í Georgíu ríki Bandaríkjanna.

Samkvæmt miðlum vestanhafs liggur grunur á því að 21 Savage sé í raun og veru breskur ríkisborgari, hann hafi komið til Bandaríkjanna frá Bretlandi sem unglingur og hafi dvalið í landinu lengur en yfirvöld höfðu leyft.

Bandaríski slúðurmiðillinn TMZ greinir frá því að yfirvöld hyggist vísa 21 Savage úr landi vegna stöðu hans sem ólöglegs innflytjanda, auk þess sem að hann hefur átt í útistöðum við lögin.

Lögfræðingur tónlistarmannsins Dina LaPolt hefur sagst vera að vinna með yfirvöldum að því að leysa 21 Savage úr haldi og komast til botns í málinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×