Enski boltinn

Varar hann við því að fara til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Timo Werner.
Timo Werner. Getty/Adam Pretty
Þýski landsliðsframherjinn Timo Werner hefur verið orðaður við Liverpool í sumar en hann myndi þá fylgja í fótspor fyrrum liðsfélaga síns.

Liverpool keypti miðjumanninn Naby Keita frá RB Leipzig á síðasta ári og Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri RB Leipzig, hefur nú varað Werner við að fara sömu leið. Ástæðan eru erfiðleikar Keita á sínu fyrsta tímabili á Anfield.

Timo Werner er 22 ára gamall og hefur spilað með RB Leipzig frá árinu 2016 auk þess að skorað 9 mörk í 23 landsleikjum fyrir Þýskaland frá sínum fyrsta landsleik árið 2017.

„Keita var framúrskarandi leikmaður hérna en hann er í vandræðum í Liverpool,“ sagði Ralf Rangnick í viðtali við Sky í Þýskalandi en Daily Mirror segir frá.



„Hann er ekki leikmaðurinn sem hann var hjá okkur hér. Kringumstæðurnar verða að vera réttar fyrir Timo og þær eru það hér,“ sagði Rangnick.

Rangnick viðurkennir að RB Leipzig geti ekki boðið Warner meiri pening og verði því líklega að selja hann í sumar. Bayern München hefur einnig áhuga.

„Við vitum að hann getur fengið hærri laun annars staðar en hann gæti einnig öðlast fjárhagslegt öryggi út lífið með því að spila hér. Peningarnir verða ekki úrslitavaldur,“ sagði Rangnick.





„Við erum að reyna að halda honum. Hann veit að hann er vinsæll í liðinu, hjá þjálfaranum og hjá stuðningsmönnunum. Hann er toppleikmaður og er einn mest spennandi framherjinn í deildinni. Hann á líka eitt og hálft ár eftir af samningnum sínum og ég vona að hann verði hér áfram. Á endanum ræður hann þessu sjálfur,“ sagði Rangnick.

Timo Werner hefur skorað 11 mörk í 19 leikjum í þýsku Bundesligunni í vetur eða einu marki meira en Alfreð okkar Finnbogason. Timo Werner var með 13 mörk í 32 leikjum í fyrravetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×