Innlent

Bandarískum og breskum ferðamönnum fækkar á milli ára

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talningin fer fram á Keflavíkurflugvelli.
Talningin fer fram á Keflavíkurflugvelli. vísir/vilhelm
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 139 þúsund í nýliðnum janúar eða um 8.500 færri en í janúar árið 2018. Breskir og bandarískir ferðamenn mynda um helming allra brottfara.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofuen vitnað er í talningu á vegum stofnunarinnar og Isavia.

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í janúar ár tilkomnar vegna Breta og Bandaríkjamanna, sem fyrr segir. Bretar voru fjölmennastir, um 34.700 talsins, og brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir en þær mældust um 29.500. Samtals voru brottfarir þessara tveggja hópa 46,2 prósent af heildarbrottförum.

Svona hefur þróunin verið á brottförum erlendra ferðamanna í janúar undanfarin ár.Mynd/Ferðamálastofa
Bretum fækkaði hins vegar um 8,6 prósent og Bandaríkjamönnum um 11,9 prósent sé síðastliðinn mánuður borinn saman við sama mánuð árið 2018. Alls er heildarfækkun brottfara erlendra farþega milli ára 5,8 prósent.

Kínverjar voru þriðju fjölmennastir í janúar síðastliðnum en brottfarir þeirra voru 7.700 talsins eða 5,5 prósent af heildarfjöldanum og fjölgaði þeim um 18,4 prósent milli ára. Brottfarir Þjóðverja voru í fjórða sæti, um 6.600 talsins eða 4,8 prósent af heildarfjöldanum og fjölgaði þeim jafnframt eða um 7,7 prósent milli ára.

Nánar má lesa um talningu Ferðamálastofu og Isavia á vef Ferðamálastofu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×