Enski boltinn

Guardiola talar um að bæta markatöluna fyrir leik á móti Gylfa og félögum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson.
Pep Guardiola ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson. Getty/ Alex Livesey
Manchester City getur komist aftur á toppinn í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Everton á Goodison Park í kvöld en leiknum var flýtt vegna úrslitaleik enska deildabikarsins seinna í þessum mánuði.

Pep Guardiola telur að markatala gæti ráðið úrslitum um hver verður Englandsmeistari í vor og þar stendur City-liðið mun betur eins og staðan er núna.

Guardiola vildi samt ekki útiloka lið eins og Tottenham, Chelsea og Manchester United í baráttunni um enska titilinn í ár þótt að umræðan síðustu mánuði hafi aðallega snúist um einvígi Liverpool og Manchester City um titilinn.

„Fyrstu skilboðin til minna manna er að vinna leikinn en svo að skora fleiri mörk ef möguleiki á því og reyna svo að fá ekki á sig mark. Það gæti nefnilega farið þannig að þú gætir unnið ensku deildina á markatölu,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Everton í kvöld.





„Ég er ekki að segja við mína stráka að þeir eigi að reyna að vinna 25-0. Það segi ég aldrei. Þú þarft að byrja á því að vinna leikinn en svo að hugsa um að skora fleiri mörk til að bæta markatöluna,“ sagði Guardiola.

Guardiola telur jafnframt að febrúarmánuður sé liðunum í ensku deildinni erfiður.

„Áður en ég kom hingað þá voru allir að tala um desember. Eftir leikinn á öðrum degi jóla þá skoðaði ég leikjadagskrána okkar og sá að þetta væri enn verra. Febrúar er erfiðari en desember,“ sagði Guardiola.

„Þegar við erum komin fram í mars, samkvæmt minni reynslu, þá eru dagarnir lengri, æfingasvæðið er í betra ásigkomulaug, sólin skín og þú sérð að það styttist í enda tímabilsins. Leikvöllurinn er betri, þú getur drukkið kaffið þitt úti og ef þú ert enn þá með í fjórum keppnum þá er það mikill plús. Þá áttar þú þig að þú getur afrekað eitthvað sérstakt,“ sagði Guardiola.

„Núna er staðan allt önnur þvi þessi mánuður er hræðilegur og allir leikirnir okkar eru eins og úrslitaleikir,“ sagði Guardiola.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×