Enski boltinn

Hafði ekki tíma til að fagna því eiginkonan var að fæða tvíbura

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Day er til vinstri en til hægri sjást liðsfélagar hans í Newport fagna.
Joe Day er til vinstri en til hægri sjást liðsfélagar hans í Newport fagna. Mynd/Samsett/Getty
Joe Day og félagar í Newport komust óvænt áfram í enska bikarnum í fótbolta í gærkvöldi eftir 2-0 sigur á b-deildarliði Middlesbrough. Newport er í d-deildinni og úrslitin komu því mjög á óvart.

Newport fær nú að reyna sig á móti Englandsmeisturum Manchester City í fimmtu umferð enska bikarsins.

Leikmenn Newport fögnuðu sigrinum vel í leikslok en einn þeirra hafi reyndar engan tíma í það. Markvörðurinn Joe Day var rokinn burt strax eftir leik og ekki af ástæðulausu.

Markvörðurinn Joe Day átti flottan leik og hélt marki sínu hreinu en kvöldið átti eftir að verða enn betra.





Joe Day missti af fyrri leiknum við Middlesbrough 26. janúar síðastliðinn vegna þess að eiginkonan hans Lizzie var komin á steypirinn.

Liðin gerðu þá jafntefli en mættust nú aftur tíu dögum seinna og ekkert bólaði á tvíburunum. Joe Day var ákveðinn að missa ekki af leiknum og slökkti á símanum. Þegar hann kveikti á honum aftur í leikslok komu fréttirnar að eiginkonan væri að fæða.

„Má ég fara stjóri,“ sagði knattspyrnustjórinn Michael Flynn að Joe Day hefði spurt sig strax eftir leik. „Hann rauk síðan strax af stað og ég hef aldrei séð hann hlaupa svona hratt,“ sagði Flynn í léttum tón.





Padraig Amond, markaskorari Newport, staðfesti það síðan í útvarpsviðtali í  BBC Radio Wales í morgun að þau hefðu eignast tvær heilbrigðar stelpur og óskaði hann Joe og Lizzie til hamingju.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×