Íslenski boltinn

„Þessi ákvörðun er algjörlega komin frá mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Brynjar Ingason í leik með Fylki í Inkasso-deildinni sumarið 2017.
Albert Brynjar Ingason í leik með Fylki í Inkasso-deildinni sumarið 2017. vísir/ernir
Albert Brynjar Ingason kvaddi í gær uppeldisfélagið og Pepsi-deildina þegar hann ákvað að skipta úr Fylki í Fjölni.

Fylkir spilar í Pepsi-deildinni í sumar en Fjölni í Inkasso deildinni. Albert skoraði þrennu í síðasta deildarleik sínum með Fylki og er langmarkahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 56 mörk. Þrennan kom einmitt í leik á móti Fjölnisliðinu sem nýtur nú krafta hans í sumar.

Albert skrifaði um félagsskiptin inn á Fésbóknina í gær þar sem hann þakkaði öllu Fylkisfólki fyrir árin saman í boltanum sem og stjórn Fylkis fyrir falleg skrif í yfirlýsingu félagsins.

„Þessi ákvörðun er algjörlega komin frá mér, og er breyting sem mér fannst ég þurfa á þessum tímapunkti. Ég hef ekkert nema góða hluti um allt batteríið að segja, leikmenn, þjálfarateymið, stjórn og alla sem vinna að þessum frábæra klúbbi okkar,“ skrifaði Albert.

Albert Brynjar Ingason skoraði 56 mörk í 167 leikjum með Fylki í efstu deild en hann hjálpaði einnig félaginu að vinna sér aftur sæti í Pepsi-deildinni sumarið 2017 þegar hann skoraði 14 mörk í 21 leik í Inkasso-deildinni. Albert mun nú reyna að endurtaka leikinn með Fjölni í sumar.

Albert lék alls tólf tímabil með Fylki en hann kom tvisvar aftur til félagsins, fyrst árið 2009 frá Val og svo aftur árið 2014 frá FH. Albert skoraði 79 mörk í 205 deildar- og bikarleikjum með Árbæjarfélaginu.

„Ég geng frá borði með í kringum 300 leiki fyrir félagið og markahæstur í sögu félagsins í efstu deild og er stoltur af því. Kveð Fylki með miklum söknuði en að sama skapi virkilega spenntur fyrir nýrri áskorun með Fjölni,“ skrifaði Albert en það má sjá allan pistil hans hér fyrir neðan.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×