Enski boltinn

93 leikmenn í deildinni hafa fengið boltann oftar en Gylfi í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er ekki að fá boltann nægilega mikið í sóknarleik Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er ekki að fá boltann nægilega mikið í sóknarleik Everton. Getty/Chris Brunskill
Gylfi Þór Sigurðsson er aðeins í 94. sæti yfir þá leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sem hafa oftast fengið boltann á þessu tímabili.

Gylfi Þór Sigurðsson er með 9 mörk og 3 stoðsendingar í 25 leikjum með Everton í ensku úrvalsdeildinni sem er ekki slæm tölfræði.

Gylfi hefur samt verið gagnrýndur og hluti af skýringunni á því er að Everton liðinu gengur ekki nægilega vel að koma boltanum á íslenska landsliðsmanninn.

Það að 93 leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa fengið að koma oftar við boltann en Gylfi er stórfurðulegt en engu að síður staðreynd þegar opinber tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar er skoðuð.

Gylfi hefur alls fengið boltann 1140 sinnum í 25 leikjum sínum með Everton á þessu tímabili. Það eru fimm leikmenn Everton fyrir ofan hann eða þeir Lucas Digne (1624 sinnum), Idrissa Gueye (1373), Seamus Coleman (1361), Michael Keane (1352) og Kurt Zouma (1142).

Chelsea-mennirnir Jorginho (2480 sinnum) og César Azpilicueta (2405) eru þeir leikmenn deildarinnar sem hafa oftast fengið boltann á þessari leiktíð.

Í næstu sætum eru síðan miðverðir toppliðanna tveggja eða þeir Aymeric Laporte hjá Manchester City (2394 sinnum) og Virgil van Dijk hjá Liverpool (2286).

Á eftir þeim eru síðan Chelsea-mennirnir Antonio Rüdiger (2221), David Luiz (2187) og Marcos Alonso (2181).

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton verða í sviðsljósinu í kvöld þegar þeir taka á móti Englandsmeisturum Manchester City á Goodison Park.  Útsending Stöðvar 2 Sport frá leiknum hefst klukkan 19.35.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×