Erlent

Nýtt Mars-far fær nafnið Rosalind Franklin

Samúel Karl Ólason skrifar
Teikning af Rosalind Franklin á yfirborð Mars.
Teikning af Rosalind Franklin á yfirborð Mars. Vísir/ESA
Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) hefur opinberað nafn nýs Mars-fars sem skjóta á til rauðu plánetunnar á næsta ári. Þegar vélmennið Rosalind Franklin lendir á Mars í mars 2021 ef því ætlað að leita að ummerkjum lífs með því að bora allt að tvo metra undir yfirborð Mars.

Nafnið Rosalind Franklin var valið úr rúmlega 36 þúsund tillögum. Rosalind Elsie Franklin var breskur efnafræðingur sem kom meðal annars að uppgötvun uppbyggingar erfðaefnis. 



Á vef ESA segir að vélmennið verði fyrsta Mars-farið sem búi bæði yfir getu til að ferðast um að bora í yfirborð plánetunnar. Rosalind Franklin mun bora allt að tvo metra undir yfirborðið, taka þaðan sýni, greina sýnin og leita vísbendinga um leifar lífs eða mögulega núverandi lífs.

Vitað er að vatn fannst á yfirborði Mars á árum áður og hefur vatn fundist neðanjarðar. Þar að auki hefur könnunarfarið Curiosity fundið lífrænar sameindir og metan.



Sjá einnig: Fundu stöðuvatn neðanjarðar á Mars



Rosalind mun senda niðurstöður sínar og aðrar upplýsingar til jarðarinnar í gegnum geimfarið Trace Gas Orbiter, sem er á sporbraut um Mars og notað er til að kanna andrúmsloft plánetunnar og þá sérstaklega með því markmiði að finna agnir af gasi sem gætu komið frá lífverum eða lífrænum efnum.

Til stendur að lenda vélmenninu á stað sem nefnist Oxia Planum. Það svæði er nærri miðbaug Mars og er talið að þar hafi áður verið mikið vatn. Því þyki mögulegt að finna ummerki lífs þar.

ESA hefur einnig hug á því að koma jarðsýnum frá Mars til jarðarinnar og er undirbúningur fyrir slíkt verkefni þegar hafinn í samstarfi við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA).



David Parker, yfirmaður hjá ESA, segir slíkt vera mikið og erfitt verk. Það fæli í sér fjölmörg verkefni þar sem hvert væri hinu erfiðara og flóknara.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×