Enski boltinn

Fá ekki að vígja nýja Tottenham-völlinn á móti Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Biðin lengist enn fyrir stuðningsmenn Tottenham.
Biðin lengist enn fyrir stuðningsmenn Tottenham. Getty/Tom Jenkins
Nýi Tottenham leikvangurinn sem átti að vera tilbúinn í haust verður ekki tilbúinn þegar Tottenham tekur á móti nágrönnum sínum í Arsenal í byrjun næsta mánaðar.

Tottenham hefur gefið það út að heimaleikur liðsins á móti Arsenal 2. mars næstkomandi verði spilaður á Wembley.  Það hefði verið vel við hæfi að vígja völlinn þá en af því verður ekki.

„Takk fyrir að sýna okkur þolinmæði í þessu. Næstu vikur skipta öllu máli,“ sagði Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, í tilkynningu félagsins.







Næsti heimaleikur Tottenham eftir Arsenal-leikinn er leikur á móti Crystal Palace sunnudaginn 17. mars. Það gæti þó breyst þar sem að þetta er bikarhelgi og Crystal Palace er enn þá með í bikarnum.

Tottenham er langt komið með að klára öll öryggismál á leikvanginum eins og segir í tilkynningunni og í framhaldi af því geta farið fram allskyns prófanir eins og á brunakerfinu og hvernig mismunandi öryggiskerfi vinna saman.

„Við munum koma með frekari tilkynningar þegar við vitum meira,“ sagði í fréttatilkynningu Tottenham.

Nýi Tottenham-leikvanguirnn var byggður á sama stað og White Hart Lane og mun taka yfir 62 þúsund manns í sæti.

White Hart Lane var rifinn eftir 2016-17 tímabilið og síðan þá hafa heimaleikir Tottenham farið fram á Wembley.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×