Körfubolti

Maciej: Ég er ekki búinn að hitta neitt síðan í nóvember

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Maciej var stigahæstur í liði Njarðvíkur í kvöld
Maciej var stigahæstur í liði Njarðvíkur í kvöld mynd/njarðvík
Maciej Baginski átti flottan leik í liði Njarðvíkur er þeir unnu öruggan sigur á nágrönnum sínum úr Grindavík, 94-65 í Dominos-deild karla.

 

„Tilfinningin er bara mjög góð. Við erum alltaf að reyna að bæta okkur. Vörnin var svona í áttina að því sem var í seinasta leik. Við byrjuðum hins vegar ekki vel báða hálfleikina.“

 

Maciej var stigahæstur í liði Njarðvíkur með 23 stig, en hann var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður sex þrista í leiknum.

 

„Ég er ekki búinn að hitta neitt síðan í nóvember þannig loksins datt þetta, vonandi heldur þetta áfram í framhaldinu.“

 

Skemmtileg staðreynd úr leiknum í kvöld, en þá klúðraði Maciej fleiri vítaskotum heldur en þriggja stiga skotum. Maciej segir það hins vegar ekki auðveldara að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna heldur en af vítalínunni.

 

„Nei vítin eru bara hausinn á manni. Ef maður er eitthvað vanstilltur, þá detta þau ekki ofan í.“

 

Framundan eru spennandi tímar hjá Njarðvíkingum. Liðið er með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þegar liðið á eftir að leika fjóra leiki. Stjarnan er í öðru sæti, og eiga leik til góða. Þá er liðið komið í undanúrslit í Geysisbikarnum. Njarðvíkingar mæta Íslandsmeisturum KR í undanúrslitum en sá leikur fer fram eftir viku. Vinni þeir gegn KR leika þeir til úrslita þann 16. febrúar. Það eru því tveir titlar í augsýn hjá Njarðvíkingum, deildarmeistaratitillinn og bikarmeistaratitillinn. Langt er síðan Njarðvíkingar lyftu titli og eru þeir þyrstir í Ljónagryfjunni.

 

„Það sem er jákvætt í þessu, þá er þetta allt í okkar höndum. Við erum enn að reyna að vinna fyrsta sætið í deildinni fyrir úrslitakeppni, og í bikarnum geta leikir dottið hvernig sem er. Þannig þetta er allt í okkar höndum og við erum mjög sáttir með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×