Enski boltinn

Martial: Pogba getur leitt okkur í átt að titlum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frakkarnir eru báðir að spila vel.
Frakkarnir eru báðir að spila vel. vísir/getty
Anthony Martial, leikmaður Manchester United, telur að samherji sinn og samlandi Paul Pogba sé maðurinn sem getur leitt liðið í átt að titlum á næstu árum en Pogba hefur spilað frábærlega undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.

Martial skrifaði undir nýjan samning við Manchester United á dögunum sem tryggir veru hans á Old Trafford næstu fimm árin en United mætir nýliðum Fulham í Lundúnum á laugardaginn.

„Við vitum allir hversu góður Paul er. Paul er paul. Nú fær hann frelsi til að spila sinn leik og því erum við að sjá bara hvað hann virkilega getur. Vonandi heldur þetta bara áfram,“ segir Martial í viðtali við við Sky Sports.

„Pogba er leiðtogi. Hann talar meira inn í búningsklefanum en hann gerir inn á vellinum. Bæði þegar kemur að fótboltatækni hans og orðalagi er hann leiðtogi. Vonandi getur hann leitt okkur í átt að stærri hlutum.“

United er búið að vinna níu af tíu leikjum sínum eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við liðinu, þar af sjö af átta í ensku úrvalsdeildinni en ekkert lið hefur safnað fleiri stigum á sama tíma. Það er nú í alvöru baráttu um sæti í Meistaradeildinni.

„Við erum ekkert langt frá því að ná einu af efstu fjórum sætunum þannig nú þurfum við bara að halda áfram að vinna og reyna að tryggja okkur þetta Meistaradeildarsæti,“ segir Anthony Martial.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×