Enski boltinn

Solskjær búinn að leggja sína framtíðarsýn á borðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Solskjær hefur blásið nýju lífi í lið United
Solskjær hefur blásið nýju lífi í lið United vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, bráðabirgðastjóri Manchester United, hefur vakið mikla lukku á Old Trafford síðan að hann tók við af José Mourinho í desember en undir stjórn Norðmannsins hefur liðið ekki tapað leik.

United er búið að vinna sjö af átta deildarleikjum sínum og safna 22 stigum af 24, meira en nokkur annað lið á sama tíma en í heildina er liðið búið að vinna níu af tíu leikjum sínum í deild og bikar og er komið í alvöru baráttu um Meistaradeildarsæti.

Norski stjórinn þekkir Manchester United inn og út og telur sig vita hvað þarf til að félagið nái árangri og þess vegna er hann búinn að leggja fram sína framtíðarsýn fyrir stjórnarformanninn Ed Woodward.

„Á hverjum degi finnst mér að ég er að setja minn stimpil á félagið en það er ekki alltaf bara mín ákvörðun hvort að leikmaður vill koma eða fara. Stundum ákveða þeir það sjálfir en við höfum okkar sýn og vitum hvað við viljum gera á næstu árum,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi sínum í dag.

„Við verðum að horfa til lengri tíma á sama tíma og við horfum skammt fram á veginn. Ég er með ákveðna mynd í höfðinu af United-liðinu og hvernig ég vil að það líti út eftir nokkur ár. Ég er búinn að útskýra þessa skoðun mína fyrir Ed Woodward og stjórnina.“

„Ég hef stutt og fylgst með United í mörg ár og er með skýra sýn og hef sterka skoðun á þessu,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×