Erlent

Fékk ekki að hafa bænaprest sér við hlið við aftöku

Samúel Karl Ólason skrifar
Dominique Ray var tekinn af lífi í nótt eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna meinaði honum að hafa bænaprest viðstaddan aftökuna.
Dominique Ray var tekinn af lífi í nótt eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna meinaði honum að hafa bænaprest viðstaddan aftökuna. Vísir/AP
Yfirvöld Alabama tóku í nótt mann af lífi eftir að honum hafði verið meinað að vera með bænaprest sér við hlið. Domineque Ray var íslamstrúar en prestum er reglulega leyft að vera viðstaddir aftökur kristinna manna í Alabama. Málið fór fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna þar sem Ray sagði ríkið vera að brjóta gegn trúfrelsi sínu.

Ray var dæmdur til dauða árið 1999 fyrir að nauðga og myrða táningsstúlkuna Tiffany Harville. Marcus Owden, sem einnig var dæmdur fyrir morðið situr í lífstíðarfangelsi.

Fimm af níu hæstaréttardómurum sögðu aftökuna mega fara fram án bænaprests, án þess þó að færa mikil rök fyrir niðurstöðunni, samkvæmt New York Times. Hinir fjórir dómararnir sögðu meirihlutann hafa „innilega rangt fyrir sér“.



Dómarinn Elena Kagan skrifaði í niðurstöður minnihlutans að samkvæmt reglum Alabama mættu fangar hafa kristna presta sér við hlið en séu þeir annarrar trúar stendur þeim ekki til boða að hafa prest þeirrar trúar viðstadda. Hún sagði það brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna sem segir að ríkið megi ekki gera upp á milli trúarbragða.

Forsvarsmenn Alabama segja málið snúa að öryggi. Prestar séu starfsmenn dómsmálayfirvalda og kom til greina að presturinn yrði ekki í herberginu þegar Ray yrði tekinn af lífi. Hann fór þó fram á að hafa bænaprest sér við hlið. Embættismenn sögðu það ekki koma til greina og buðu honum að fá bænaprest í heimsókn skömmu fyrir aftökuna og að hann mætti fylgjast með úr næsta herbergi. Hann mætti þó ekki vera í herberginu við aftökuna.

Lögmaður Ray sagði bænaprest sem hefur reglulega heimsótt fanga sem hafa verið dæmdir til dauða hafa farið í gegnum öryggisskoðun því hefði hann átt að vera viðstaddur aftökuna. Hann segir ljóst að um mismunun hafi verið að ræða.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×