Erlent

Tígrisdýr í útrýmingarhættu lést eftir slagsmál í dýragarðinum í London

Andri Eysteinsson skrifar
Súmötrutígur í dýragarðinum í Róm.
Súmötrutígur í dýragarðinum í Róm. EPA/ Giorgio Onorati
Fyrstu kynni tígrisdýranna Asim og Melati fóru ekki eins og starfsfólk dýragarðsins í London hafði séð fyrir sér. Í stað þess að fella hugi saman drap karldýruið Asim, Melati í slagsmálum. BBC greinir frá.

Kettirnir voru báðir Súmötrutígrisdýr, undirtegundin er í mikilli útrýmingarhættu og freistuðu dýragarðsyfirvöld þess að þau Asim og Melati myndu fella saman hugi og eignast afkvæmi.

Hinn sjö ára gamli Asim var fluttur til London frá dýragarði í Danmörku og var honum komið fyrir nærri hinni 10 ára gömlu Melati. Ætlunin var að mynda tengsl milli þeirra áður en að þau yrðu kynnt fyrir hvort öðru að fullu.

Svo fór þó ekki því snögglega eftir að Asim var hleypt inn á svæðið réðst hann á Melati. Þrátt fyrir tilraunir dýragarðsvarða til að stöðva átökin tókst það ekki og enduðu áflogin með dauða Melati. Í yfirlýsingu dýragarðsins segir að starfsfólk sé harmi slegið eftir atburði dagsins en muni halda áfram að sinna Asim.

Asim hafði verið kynntur fyrir dýragarðsgestum sem myndarlegu og sjálfsöruggu tígrisdýri sem væri þekktur fyrir að sýna mikla ástúð gagnvart kvendýrunum í sínu lífi. Annað kom þó á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×