Erlent

Dæmdur fyrir að sauma heróín á hvolpa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn ræktaði hundana sjálfur, án tilskilinna leyfa, á búgarði sínum í Medellín.
Maðurinn ræktaði hundana sjálfur, án tilskilinna leyfa, á búgarði sínum í Medellín. Fíkniefnaeftirlit Bandaríkjanna
Kólumbískur dýralæknir var á miðvikudag dæmdur til 72 mánaða fangelsisvistar í Bandaríkjunum fyrir dýraníð og eiturlyfjasmygl. Maðurinn, Andres Lopez Elorez, er sagður hafa saumað poka fulla af heróíní, sem var í vökvaformi, við hvolpa sem flytja átti til Bandaríkjanna.

Málið á sér langan aðdraganda. Elorez er talinn hafa byrjað að framkvæma aðgerðirnar á dýralæknastofu sinni í kolumbísku borginni Medellín í september árið 2004. Hundana ræktaði hann sjálfur á búgarði sínum og saumaði á maga þeirra poka fulla af fíkniefninu allt fram í ársbyrjun 2015. Þá höfðu yfirvöld fengið veður af starfsemi hans og réðust í húsleit á búgarðinum.

Þar fundu lögreglumenn 17 poka af heróíni, næstum þrjú kíló, og var þegar búið að sauma 10 poka á hvolpa. Þrátt fyrir að lögreglumönnum hafi tekist að losa pokana af öllum hvolpunum eru þrír þeirra sagðir hafa fengið sýkingu í sár sín og látist skömmu síðar.

Elorez sjálfum tókst hins vegar að sleppa og hélt til Spánar. Þar fór hann huldu höfði allt fram til 2015 þegar lögreglumenn höfðu loks hendur í hári hans. Þremur árum síðar var samþykkt að framselja hann til Bandaríkjanna þar sem hann var leiddur fyrir dómara í New York. Hann dæmdi Elorez til 72 mánaða fangelsisvistar sem fyrr segir en að henni lokinni verður hann aftur sendur til Kólumbíu.

Hér að neðan má sjá umfjöllun bandarísku ABC-sjónvarpsstöðvarinnar í New Orleans um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×