Skoðun

Karlmenn efla líka tengslanetið við konur 

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Viðurkenningarhátíð FKA verður haldin 31. janúar í Gamla bíói klukkan 16.30. Þar heiðrum við þrjár konur sem allar hafa skarað fram úr í atvinnulífinu. Þessari hátíð hefur FKA staðið fyrir frá árinu 1999, að árinu 2001 undanskildu. Fyrsta konan til að hljóta FKA viðurkenninguna var Hillary Rodham Clinton. Síðan þá hafa hátt í sjötíu konur verið heiðraðar fyrir þeirra framlag í þágu íslensks atvinnulífs, einstaka aðilar reyndar inn á milli.

Á þessa hátíð fjölmennum við FKA-konur í hundraða tali og stundum hef ég verið spurð að því hvort karlmenn megi ekki mæta líka. Svarið er auðvitað: Jú, endilega! Sumum karlmönnum þykir mæting á hátíðina reyndar mjög sérstök upplifun. Það skýrist af því að þar eru kynjahlutföllin öfug við þau sem við eigum að venjast á viðburðum í atvinnulífinu.

Ég man til dæmis eftir einum karlkyns gesti á hátíðinni okkar í fyrra. Hann er ónefndur forstjóri í Kauphallarfyrirtæki. Þessi maður kom á hlaupum inn, glaður í bragði, heilsaði með virktum en snarstansaði síðan í anddyrinu og hvíslaði að mér: ,,Rakel, er ég eini karlmaðurinn sem er hérna?“ Ég hló og hughreysti hann með því að benda honum á hvaða karlmenn væru nú þegar komnir inn í sal. Þar hitti ég hann stundu síðar í hrókasamræðum við hóp FKA-kvenna og auðvitað skemmti hann sér konunglega. Nokkrum vikum síðar hitti ég þennan mann á fjölmennri ráðstefnu SA. Þar voru að venju mun fleiri karlmenn en konur. Við rifjuðum upp þetta litla atvik úr anddyrinu og ég benti honum á að oft líður konum í atvinnulífinu nákvæmlega eins og honum leið þetta umrædda augnablik. Sérstaklega á fundum.

Ég nefni sem dæmi að 78% framkvæmdastjórnenda Kauphallarfyrirtækja eru karlmenn. Sem er mikil synd því rannsóknir sýna að meiri líkur eru á betri árangri með blönduðum teymum. Ég hvet því forystumenn í atvinnulífinu til að nýta Viður­kenningarhátíð FKA sem tækifæri til að efla tengslanet sitt við konur í atvinnulífinu. Þarna fjölmennum við á okkar stærstu hátíð ársins og að okkar mati er það bara jákvætt að sem flestir fagni með okkur. Sjáumst í Gamla bíói á fimmtudag.

Höfundur er formaður FKA




Skoðun

Sjá meira


×