Innlent

Starfskjaranefnd OR ákvarðar sér 25 þúsund á tímann

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sigríður Rut Júlíusdóttir, formaður starfskjaranefndar OR.
Sigríður Rut Júlíusdóttir, formaður starfskjaranefndar OR.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í síðasta mánuði að laun nefndarmanna starfskjaranefndar fyrirtækisins verði 25 þúsund krónur fyrir hvern unninn klukkutíma. Formaður þessarar þriggja manna nefndar fær sömu þóknun auk 50% álags, eða 37.500 krónur á tímann. Það er starfskjaranefnd sjálf sem leggur til hver laun nefndarmanna skulu vera.

Sjálfstæðismenn í stjórn Orkuveitunnar hafa löngum deilt á starfskjaranefnd og sagt hana óþarfa peningasóun. Kjartan Magnússon, sem setið hefur í starfskjaranefnd, benti á það í Fréttablaðinu í fyrra að þessi þriggja manna nefnd hefði fyrst og fremst það verkefni að fjalla um kjör forstjóra og innri endurskoðanda OR.

Hefur hann ítrekað bent á að stjórnar formaður og stjórn Orkuveitunnar geti vel séð um þessi verkefni. Sigríður Rut Júlíusdóttir, formaður starfskjaranefndar OR, lagði fram og kynnti tillögu nefndarinnar um laun nefndarmanna á stjórnarfundi OR í desember.

Geir Guðjónsson, varamaður í stjórn OR, lagði á fundinum fram breytingartillögu um að  lækka launin í  10 þúsund krónur fyrir hverja unna klukkustund. Sú tillaga var felld og tillaga nefndarinnar sjálfrar um eigin laun upp á 25 þúsund krónur á tímann samþykkt. Í fundargerð kemur fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR,   Katrín Atladóttir og Björn Gíslason, hefðu ítrekað þá skoðun sína að ekki væri þörf á nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×