Innlent

Öflugur skjálfti við Surtsey nokkuð merkilegur að mati jarðfræðings

Birgir Olgeirsson skrifar
Jarðfræðingar hafa ekki merkt gosóróa á svæðinu eftir skjálftann við Surtsey.
Jarðfræðingar hafa ekki merkt gosóróa á svæðinu eftir skjálftann við Surtsey. Vísir/Getty
Öflugur skjálfti mældist við Surtsey í nótt en hann er sá stærsti sem mælst hefur á þeim slóðum í 27 ár. Skjálftinn árið 1992 var 3,4 að stærð en skjálftinn sem reið yfir þegar klukkan vantaði átján mínútur í tvö í nótt var jafn stór. Hann mældist á 14,4 kílómetra dýpi um 2,1 kílómetra norðvestur af Surtsey. 

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftann í nótt því nokkuð merkilegan en hún segir ekki algengt að skjálftar ríði yfir á þessu svæði. Rúmlega 100 skjálftar hafa mælst við Surtsey frá árinu 1991, eða á 28 ára tímabili.

Tveir eftirskjálftar mældust í nótt en jarðfræðingar hafa ekki fundið nein merki um gosórá á þessu svæði sem er virk eldstöð.

Engar tilkynningar bárust til Veðurstofunnar vegna fólks sem fann fyrir skjálftanum en helst hefðu það verið íbúar í Vestmannaeyjum og Hvolsvelli. Jarðfræðingar á Veðurstofunni brugðu meira segja á það ráð að heyra í vinum og kunningjum í þessum bæjum en enginn fann fyrir skjálftanum sem reið yfir um miðja nótt.

Elísabet segir mikilvægt fyrir jarðfræðinga að fá tilkynningar frá fólki þegar það finnum fyrir jarðskjálftanum því það hjálpar þeim að meta stærð skjálftanna og gera grein fyrir áhrifum þeirra.

Að því er fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands myndaðist Surtsey í neðansjávargosi í nóvember árið 1963, þar sem fyrir var um 130 metra dýpi. Lauk Surtseyjargosi í júní árið 1967.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×