Handbolti

Aron og Arnór ekki með gegn Frakklandi í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson verður ekki með Íslandi í dag.
Aron Pálmarsson verður ekki með Íslandi í dag. Vísir/Getty
Hvorki Aron Pálmarsson né Arnór Þór Gunnarsson verða með Íslandi þegar liðið mætir Frakklandi á HM í handbolta í Köln klukkan 19.30 í kvöld.

Guðmundur Guðmundsson hefur gert tvær breytingar á leikmannahópi Íslands og kallað á þá Hauk Þrastarson og Óðinn Þór Ríkharðsson. Báðir verða því með í leiknum í kvöld.

Haukur hefur verið með íslenska landsliðinu ytra sem sautjándi maður í hóp en Óðinn Þór, sem leikur með GOG í Danmörku, kemur til móts við hópinn í hádeginu.

Aron og Arnór meiddust báðir í tapleiknum gegn Þýskalandi í gær. Aron fékk tak í nárann eftir 20 mínútna leik og kom ekki meira við sögu. Arnór Þór meiddist aftan í læri snemma í síðari hálfleik.

Báðir hafa spilað vel fyrir ungt lið Íslands í Þýskalandi og eru í hópi reyndustu leikmanna landsliðsins. Aron leikur með Barcelona á Spáni og Arnór Þór er í hópi markahæstu leikmanna þýsku 1. deildarinnar.

Hvert lið má gera þrjár breytingar á meðan heimsmeistarakeppninni stendur. Það er því ljóst að Aron og Arnór munu ekki báðir snúa aftur í íslenska landsliðið fyrir leikinn gegn Brasilíu á miðvikudag, en annar þeirra á möguleika á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×