Innlent

Segir 16 prósent landsmanna treysta lífeyrissjóðunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir nauðsynlegt að taka lífeyriskerfið til endurskoðunar.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir nauðsynlegt að taka lífeyriskerfið til endurskoðunar. vísir/vilhelm
„Það er krafa bæði frá okkur, Eflingu og Verkalýðsfélagi Akraness að það fari fram gagnger úttekt,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í Bítinu á Bylgjunni í morgun, og á þar við um heildarúttekt á lífeyrissjóðakerfinu. Stéttarfélögin þrjú hafa farið fram á slíkt samtal við stjórnvöld en hafa engin svör fengið. Hann segir að í ljósi skorts á trausti til kerfisins þurfi að taka það til endurskoðunar.

„Það voru um 17 prósent sem báru mikið traust til lífeyrissjóðanna árið 2016. Í nýlegri könnun sem við létum gera bera einungis 16 prósent traust til lífeyrissjóðakerfisins.“ 

Ragnar Þór telur kerfið offjármagnað og of íþyngjandi fyrir bæði launþega og atvinnurekendur. 

„Gjaldtaka í alls kyns sjóði eins og lífeyrissjóðina er orðin allt of há,“ segir hann. „Hún er orðin íþyngjandi fyrir lífskjör almennings frá degi til dags. Bæði það sem snýr að því að hækka iðgjöldin í lífeyrissjóðakerfinu. Þá verður alltaf minna og minna til að lifa af á. Svigrúm fyrtækja til að borga hærri laun minnkar að sama skapi.“

Þá sé sterk eignarstaða lífeyrissjóðanna í fyrirtækjum landsins og arðsemiskrafa þeirra þar ekki til bóta fyrir lífskjör almennings. 

„Þar er krafan, Eins og kom fram í frétt um Olís um daginn, að ef að laun hækka þarf að fækka starfsfólki vegna þess að launakostnaður verður of hár. Arðsemiskrafan út frá því þarf að halda. Þá þarf að lækka annað hvort launakostnað með því að segja upp starfsfólki eða reyna að halda launum niðri með öðrum hætti,“ segir Ragnar Þór.



Klippa: Bítið - Ný könnun VR: 16% landsmanna treysta lífeyrissjóðunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×