Skoðun

Jafnréttisstefna í reynd

Stefán Jóhann Stefánsson skrifar
Nokkur umræða hefur spunnist í netmiðlum eftir frétt í Fréttablaðinu nýverið um þá ákvörðun að færa til málverk innan Seðlabanka Íslands. Sumpart virðist þessi umræða á misskilningi byggð. Seðlabankinn er ekki að leggja listrænt mat á verkin og þaðan af síður að fela þau. Ástæðan fyrir flutningnum er einfaldlega sú að bankinn er að framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í jafnréttismálum.

Seðlabankinn leggur ríka áherslu á að framfylgja markmiðum laga um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna og hlaut m.a. nýverið formlega jafnlaunavottun. Unnið hefur verið að því að jafna kjör karla og kvenna og jafna stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum innan bankans. Bankinn hefur sett sér jafnréttisstefnu og fylgir jafnréttisáætlun til að ná settum markmiðum. Í jafnréttisáætlun er meðal annars kveðið á um að ekki skuli vera í starfsumhverfi atriði sem misbjóði starfsmönnum.

Svo sem fram hefur komið á Seðlabankinn ýmis málverk, m.a. eftir marga af fremstu listmálurum þjóðarinnar og hafa þau prýtt veggi stofnunarinnar um árabil og verið færð til við breytingar á húsnæði eða við starfsmannaskipti án þess að það hafi þótt tiltökumál. Komið hefur fyrir á undanförnum árum að starfsmenn hafa lýst óánægju sinni með staðsetningu slíkra verka. Um hefur verið að ræða verk af nakinni konu á skrifstofum yfirmanna. Yfirmennirnir hafa verið karlmenn og listaverkið blasað við þeim starfsmönnum, konum og körlum, sem þurft hafa að sækja erindi til þeirra. Síðast þegar óánægju varð vart vegna þessa varð það að ráði, m.a. með vísan til jafnréttisáætlunar, að færa listina til. Markmiðið er að umhverfið sé sem minnst truflandi fyrir starfið.

Því hefur verið ákveðið að myndir af umræddum toga verði ekki á skrifstofum yfirmanna eða í vinnurýmum starfsmanna. Þessi ákvörðun hefur ekkert með listrænt mat á verkunum að gera. Þess má svo geta að búið var að ákveða að þessar myndir verða meðal þess sem verður til sýnis á Safnanótt í Seðlabankanum 8. febrúar næstkomandi.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×