Handbolti

Álagið á HM að öllu leyti óásættanlegt og eitthvað sem verður að bæta úr

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Guðmundur Guðmundsson er ósáttur með álagið á HM.
Guðmundur Guðmundsson er ósáttur með álagið á HM. vísir/getty
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta eiga annan frídag í dag en þessir tveir dagar er lengsta pása sem þeir hafa fengið eftir komu sína til Þýskalands á HM 2019.

Á sunnudaginn spiluðu strákarnir fjórða leikinn á fimm dögum og töpuðu stórt fyrir heimsmeisturum Frakka sem eru með töluvert meiri breidd en íslenska liðið.

 

„Ég vil óska Frökkum til hamingju, þeir voru betra liðið. Þeir eru erfitt lið til að spila á móti eins og ég hef upplifað margoft áður,“ sagði Guðmundur á blaðmannafundi eftir leikinn.

„Við erum búnir að vera að spila með ungt lið og erum að hefja þriggja ára verkefni. Við erum með 17 ára gamlan leikstjórnanda núna og unga menn sitthvoru megin við hann,“ sagði Guðmundur.

Ástæðan fyrir því að hinn 17 ára gamli Haukur Þrastarson kom inn í liðið voru meiðsli Arons Pálmarssonar sem fór í náranum í leiknum á móti Þýskalandi á laugardaginn. Arnór Þór Gunnarsson meiddist einnig í sama leik.

„Við erum líka að spila án þriggja mjög góðra leikmanna. Það var mjög sorglegt að Aron Pálmarsson og Arnór Gunnarsson skyldu meiðast því þetta er mjög erfitt mót,“ sagði Guðmundur.

„Við erum núna búnir að spila fjóra leiki á fimm dögum sem er að öllu leyti óásættanlegt. Það þarf að laga þetta í framtíðinni fyrir heilsu leikmannanna. Ég bara botna ekkert í þessu,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×