Enski boltinn

Sjáðu alla dramatíkina í 4-3 sigri Liverpool frá öðru sjónarhorni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah skorar annað af mörkum sínum í leiknum.
Mohamed Salah skorar annað af mörkum sínum í leiknum. Getty/Laurence Griffiths
Liverpool þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum í 4-3 sigri á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Anfield á laugardaginn og nú er hægt að sjá hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á bak við tjöldin á leikdegi.

Liverpool liðið lenti 1-0 undir í leiknum og endaði síðan leikinn manni færri. Fjögur mörk í seinni hálfleiknum sáu hins vegar til þess að Liverpool er áfram með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

Sadio Mane skoraði fjórða markið þegar Liverpool var orðið tíu á móti ellefu og það mark sá á endanum til þess að Liverpool liðið fékk öll þessi þrjú dýrmætu stig í baráttunni við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn.

Inside Anfield hefur nú sett saman myndband frá þessum dramatíska degi þar sem má sjá leikinn frá öðruvísi sjónarhornum eins og fyrir utan leikvanginn og inn í leikmannagöngunum fyrir og eftir leik. Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.

Myndbandið hefst á því að myndatökumenn hittu eina af goðsögnum Liverpool úr 1988 meistaraliðinu og það má síðan sjá goðsögnina Kenny Dalglish gagnrýna Jason McAteer fyrir að sparka í Michael Owen í Star Sixes ölduungarmótinu. Svar McAteer: „Ég sparkaði ekki nógu fast í hann.“

Egyptinn Mo Salah skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í leiknum og hann fékk líka gagnrýni á sig fyrir leikaraskap þegar hann reyndi að fiska víti á Mamadou Sakho. Það er því athyglisvert að sjá við hvern hann skipti á treyjum í leikmannagöngunum eftir leikinn. Fögnuður leikmanna Liverpool og hvernig þeir samgleðjast hverjum öðrum fær líka sinn tíma í myndbandinu.

Myndavélarnar eru líka mikið á knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp og þar má sjá hversu miklu máli þessi góðu úrslit skiptu hann og liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×