Erlent

Slæmur jarðvegur hefur tafið fyrir björgunaraðgerðum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Mikill viðbúnaður er á vettvangi.
Mikill viðbúnaður er á vettvangi. EPA/Daniel Perez
Tíu dagar eru síðan hinn tveggja ára gamli Julen Rosello féll ofan í borholu rétt hjá bænum Totalán nærri Malaga á suðurhluta Spánar. 

Klukkan sex í morgun að spænskum tíma kláruðu björgunaraðilar að bora lóðrétt göng samhliða borholunni sem Julen féll í. Nú mun hópur fjögurra sérfræðinga í námugreftri fara niður í 60 metra djúpa holuna í lyftu.

Þar munu þeir grafa sér leið yfir á staðinn þar sem jarðvegur hefur lokað borholunni á um 73 metra dýpi. Þannig vonast þeir til að geta losað jarðveginn sem lokar holunni og þannig náð til Julen.

Jarðvegur lokar borholunni á 73 metra dýpi. 4 manna teymi fer niður í holu sem hefur verið boruð samsíða og reyndir að grafa sér leið yfir.Mynd/Skjáskot
Hingað til hefur verið notast við bora og vinnuvélar en þessi hluti verksins verður gerður handvirkt og mun reynast erfiðisverk. Tveggja manna teymi grafa á 40 til 60 mínútna vöktum og talið er að verkið muni taka 24 klukkustundir og klárast seint í nótt eða í fyrramálið. 

Lélegur jarðvegur og slæm veðurskilyrði hafa ítrekað sett strik í reikninginn. Jarðvegurinn er harður og mikið er um stóra grjóthnullunga. 

Borholan sem Julen féll í er einungis um 25 til 30 sentímetrar í þvermál og um hundrað metra djúp. Á um 73 metra dýpi hefur jarðvegur færst til og lokar hann holunni. Þar hefur fundist hár af drengnum ásamt sælgæti og plastbolla sem hann var með þegar hann féll ofan í. Hinsvegar hafa myndavélar ekki komið auga á drenginn sjálfan og engar vísbendingar hafa fengist um hvort hann sé á lífi. Um er að ræða mikinn fjölskylduharmleik en foreldrar Julen misstu annan son, eins og hálfs árs gamlan, af slysförum fyrir tveimur árum síðan.

Spænsk yfirvöld rannsaka nú slysið en borholan sem um ræðir var boruð ólöglega og ekki innsigluð líkt og reglur kveða á um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×