Handbolti

Norðmenn gerðu sitt og Króatar spila um fimmta sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sander Sagosen í baráttunni í kvöld.
Sander Sagosen í baráttunni í kvöld. vísir/getty
Norðmenn hafa gert sitt til að komast í undanúrslitin á HM í handbolta og Króatar urðu fyrsta liðið til þess að hafa betur gegn ríkjandi heimsmeisturum, Frakklandi.

Norðmenn unnu níu marka sigur á Ungverjum í Boxen-höllinni í Herning, 36-25, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir er liðin gengu til búningsherbergja, 16-13.

Noregur þurfti að vinna leikinn og þurfa nú að treysta á að Danmörk vinni Kristján Andrésson og lærisveina í Svíþjóð til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en Svíþjóð og Danmörk mætast síðar í kvöld.

Magnus Jondal var markahæstur Norðmanna með sjö mörk úr sjö skotum en línumaðurinn Bjarte Myrhol bætti við sex. Í liði Ungverja var Zsolt Balogh í sérflokki en hann skoraði ellefu mörk.

Króatar munu spila um fimmta sætið eftir að hafa verið fyrsta liðið til þess að vinna Frakkland á þessu heimsmeistaramóti en Króatar höfðu betur, 22-20, er liðin mættust í Köln í kvöld.

Frakkarnir voru fyrir leikinn komnir í undanúrslitin og dreifðu álaginu vel en Króatar spila um fimmta sætið í mótinu við annað hvort Svíþjóð eða Noreg. Það skýrist síðar í kvöld.

Melvyn Richardson var markahæstur hjá Frakklandi með fimm mörk úr sínum fimm skotum en hornamaðurinn Zlatko Horvat var öflugur í liði Króata og skoraði sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×