Innlent

Þrjár sviðsmyndir um raforkunotkun

Sveinn Arnarsson skrifar
Orkuspárnefnd hefur birt sviðsmyndir sínar um raforkunotkun.
Orkuspárnefnd hefur birt sviðsmyndir sínar um raforkunotkun.
Í nýrri skýrslu raforkuhóps Orkuspárnefndar eru dregnar fram þrjár sviðsmyndir um raforkunotkun 2018-2050. Er þetta í annað sinn sem hópurinn tekur saman slíkar sviðsmyndir sem viðbót við árlega spá nefndarinnar.

Fyrsta sviðsmyndin er „Hægar framfarir“ en þar er gert ráð fyrir minni hagvexti en í raforkuspá. Þá er lögð minni áhersla á umhverfismál og orkuskipti. Sýnir myndin árlegan vöxt almennrar raforkunotkunar upp á 0,9 prósent en samkvæmt Raforkuspá er árlegur vöxtur 1,7 prósent. Árið 2050 yrði almenn notkun 5.450 gígavattsstundir sem er 35 prósenta aukning.

Önnur sviðsmyndin er „Græn framtíð“ þar sem gert er ráð fyrir meiri hagvexti, aukinni áherslu á umhverfismál og hraðari orkuskiptum heldur en í Raforkuspá. Þannig yrði árlegur vöxtur almennrar raforkunotkunar 2,2 prósent og myndi notkunin tvöfaldast á spátímanum og verða um 8.400 gígavattsstundir árið 2050.

Þriðja sviðsmyndin er „Aukin stórnotkun“ og byggir á forsendum Raforkuspár en gerir að auki ráð fyrir aukinni stórnotkun raforku. Er þar byggt á þeirri forsendu að þróun stórnotkunar verði áfram lík og hún var á tímabilinu 2008-2020. Miðað við það yrði sameiginleg orkuþörf almenna markaðarins og stórnotenda 33.400 gígavattsstundir árið 2050.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×