Erlent

Sádar sagði vinna að þróun langdrægra eldflauga

Samúel Karl Ólason skrifar
Herstöðin sem um ræðir.
Herstöðin sem um ræðir. AP/Planet Labs
Sérfræðingar segja gervinhnattamyndir af afskekktri herstöð í Sádi-Arabíu sýna fram á að ríkið sé að vinna að þróun langdrægra eldflauga. Þrátt fyrir að yfirvöld þar hafi margsinnis gagnrýnt Írani fyrir að vinna að þróun eldflauga. Óttast er að ríkið sé sömuleiðis að vinna að þróun kjarnorkuvopna, samhliða þróun eldflauga til að bera slík vopn.

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, sagði í fyrra að konungsríkið myndi ekki hika við að þróa kjarnorkuvopn ef andstæðingar þeirra í Íran gerðu það.

Íranar hafa ávallt haldið því fram að kjarnorkutilraunir þeirra snúi ekki að þróun sprengja en forsvarsmenn margra ríkja og Sádi-Arabíu hafa lengi efast um það. Þá hefur eldflaugum reglulega verið skotið að Sádi-Arabíu frá Jemen. Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og önnur ríki segja Írana hafa útvegað uppreisnarmönnum Húta í Jemen slíkar eldflaugar.

Þá segja sérfræðingar sem hafa skoðað áðurnefndar myndir að herstöðin og aðbúnaður þar líkist eldflaugasmiðjum Kína. Sádi-Arabía hefur keypt eldflaugar af Kína, samkvæmt AP fréttaveitunni, og hafa Kínverjar einnig selt Sádum annars konar vopn á undanförnum árum.



Talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína neitaði í fyrstu að tjá sig um málið við AP en sagði seinna meir að hann hefði engar upplýsingar um að Kína hefði hjálpað Sádi-Arabíu að byggja eldflaugastöð. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ekki viljað tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×