Erlent

Þjóðaröryggisráðgjafi Trump: Munu bregðast við ef starfsmenn sendiráðsins í Venesúela verði beittir ofbeldi

Samúel Karl Ólason skrifar
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump. AP/Manuel Balce Ceneta
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni bregðast við af krafti, verði starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna í Venesúela beittir ofbeldi eða ógnunum. Nicolás Maduro, forseti Venesúela, ákvað fyrr í vikunni að slíta stjórnmálasamskiptum ríkjanna og gaf Bandaríkjamönnum 72 sólarhringa að flytja starfsmenn sendiráðsins úr landi.



Yfirvöld í Bandaríkjunum höfnuðu því þó á þeim grundvelli að samskipti ríkjanna myndu halda áfram í gegnum Juan Guaidó, sem þjóðþingið hefur skipað sem starfandi forseta Venesúela.

Eftir að stjórnarandstaðan náði meirihluta á þingi árið 2017, skipaði Maduro nýtt þing, stjórnlagaþing, og færði flest völd gamla þingsins yfir á það. Hann sór embættiseið í byrjun ársins eftir kosningar sem stjórnarandstaðan viðurkenndi ekki og eftirlitsaðilar segja ekki hafa farið rétt fram. Í kjölfar þess lýsti gamla þingið Guaidó starfandi forseta Venesúela.

Fresturinn sem Maduro gaf Bandaríkjamönnum er nú liðinn Í gærkvöldi gaf Utanríkisráðuneyti Venesúela hins vegar út að fresturinn hefði verið lengdur í 30 daga..

Maduro og Guaidó berjast nú um hilli hermanna í Venesúela en herinn mun að öllum líkindum ráða því hvort Maduro haldi völdum eða ekki. Stuðningsmenn Guaidó dreifðu bæklingum til hermanna í dag þar sem þeir voru hvattir til að hafna stjórn Maduro og lofað náðun hjálpi þeir að koma lýðræðinu á í Venesúela á ný, eins og það var orðað samkvæmt AP fréttaveitunni.



„Við erum að bíða eftir ykkur, hermenn Venesúela,“ sagði Guaidó á blaðamannafundi í dag. Þá hvatti hann hermenn til að skjóta ekki á mótmælendur en tugir þeirra eru sagðir hafa verið skotnir til bana á undanförnum dögum.

Maduro varði deginum í að fylgjast með heræfingum og ræða við hermenn í Venesúela.

Æðstu hershöfðingjar Venesúela hafa lýst yfir hollustu við Maduro á undanförnum dögum. Það er þó ekki víst hvort óbreyttir hermenn styðji við bakið á Maduro. Fjölskyldur þeirra hafa þurft að berjast við matarskort, óðaverðbólgu, glæpi og fleira. Talið er að rúmlega þrjár milljónir manna hafi flúið Venesúela á undanförnum árum.


Tengdar fréttir

Útilokar ekki að slíta viðskiptasambandi við Maduro

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hyggist gera allt sem í þeirra valdi stendur til að knýja á um nýjar kosningar í Venesúela. Hann segist ekki útiloka að hætta öllum viðskiptum við ríkisstjórn Nicolas Maduro, forseta Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×