Innlent

„Við skulum sjá hvað gerist í lok vikunnar“

Jóhann K. Jóhannsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ómögulegt að segja til um hvert kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir leiða. Það sem skipti máli sé að deiluaðilar séu að ræða saman.

Fyrsta fundi vikunnar í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins lauk í hádeginu. Fundurinn fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara en áætlað er að funda aftur á miðvikudag og föstudag.

„Við erum að fara núna í þessari viku að fara yfir mál sem hefur verið vísað til okkar af undirbúningshópum sem eru langt komnir með sína vinnu þannig að við erum að fara yfir marga þætti kjarasamningsins sem snúa að hinum ýmsu kröfum þannig að verkefnalisti vikunnar er þétt skipaður og nóg að ræða um,“ sagði Ragnar Þór að loknum fundi.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ítrekaði það að enn ætti eftir að koma í ljós hverjar af tillögum átakshóps í húsnæðismálum verði að veruleika. Aðspurð hvenær ætti að taka stöðuna á viðræðunum sagði Sólveig:

„Við skulum sjá hvað gerist í lok vikunnar.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði fundinn í dag hafa verið vinnufund. Farið hafði verið í gegnum mörg atriði sem sum voru afgreidd en öðrum vísað inn í vinnuhópa sem munu taka til starfa á næstu dögum.

Hann sagði það góðs viti á meðan samningsaðilar væru að hitta því orð væru til alls fyrst.

„Kjarasamningar snúast um þróun samfélagsins og það er það sem er undir. Þar vilja báðir samningsaðilar reyna að bæta samfélagið og um það snerist fundurinn í dag,“ sagði Halldór Benjamín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×