Lífið

Ófær um að eignast afkvæmi vegna of lítils lims

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hektor mun að öllum líkindum ekki feðra nein afkvæmi.
Hektor mun að öllum líkindum ekki feðra nein afkvæmi. CEN/Zoo Poznan
Nær fimmtugur caiman-krókódíll í Poznan dýragarðinum í Póllandi er ófær um að geta sér afkvæmi sökum óvenjulegs getnaðarlims hans. Krókódíllinn er einfaldlega með of lítinn lim.

Krókódíllinn Hektor og maki hans, Luiza, hafa verið saman í dýragarðinum í að verða fimmtíu ár. Á þeim tíma hafa þau margsinnis reynt að fjölga sér en án árangurs.

Krókódílaparið hefur fylgst að í gegnum ævina frá því þau komu í dýragarðinn í pólsku borginni árið 1973.

Dýrgarðsstarfsfólki hafði lengi verið hulin ráðgáta hvers vegna skriðdýrin tvö hafi ekki getað eignast afkvæmi þar sem parið makist reglulega að sögn starfsfólks og hamagangurinn verði oft slíkur að vatnið í búri dýranna breytist hreinlega í froðu.

Vandamál Hektors kom í ljós á dögunum þegar sérfróðir dýralæknar frá Þýskalandi komu til að líta á Hektor, en hann hafði verið lystarlaus og ekki viljað borða.

Við skoðun kom í ljós að ekkert amaði að Hektori, en dýralæknarnir tóku þó eftir því að getnaðarlimur hans væri of lítill til þess að hann gæti getið afkvæmi.

Í ofanálag við vandamál Hektors er parið nú talið of gamalt til þess að geta afkvæmi.

Því verða Hektor og Luiza að láta sér félagsskap hvors annars nægja. Ekki er líklegt að afkvæmaleysið trufli þau skötuhjúin mikið, en þau eru afar hænd hvort að öðru miðað við tegund. Nánast óþekkt er að caiman-krókódílar makist til lífstíðar í sínu náttúrulega umhverfi.

Hektor og Luiza hafa fylgst að í tæp fimmtíu ár.CEN/Zoo Poznan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×