Viðskipti innlent

Verðbólgan var 3,4% í janúar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Janúarútsölur skýra lækkun verðbólgunnar í janúar.
Janúarútsölur skýra lækkun verðbólgunnar í janúar.
Vísitala neysluverðs lækkaði í janúar og mældist þá 3,4% samanborið við 3,7% verðbólgu í desember. Breytingin skýrist að hluta til af verðlækkunum á janúarútsölum.

Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að þessi lækkun í janúar hafi ekki verið fjarri væntingum en opinberar spár gerðu ráð fyrir 0,2-0,5% lækkun milli mánaða. Hagfræðideild Landsbankans spáði 0,5% lækkun. 

Föt og skór lækkuðu vegna áhrifa frá janúarútsölum. Lækkunin milli mánaða var svipuð og síðustu ár. Í Hagsjánni segir að venju samkvæmt megi búast við að þessi lækkun gangi til baka í febrúar og mars.

Liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði einnig vegna janúarútsala. Ólíkt fötum og skóm var lækkunin nokkuð minni en síðustu ár. 

Matur og drykkjarvörur hækkuðu milli mánaða og mælist ársverðbólga á þessum undirlið vísitölunnar 4,8%. Síðustu tólf mánuði hafa annars vegar olía og feitmeti hækkað um 8,9% og hins vegar hafa vegar grænmeti, kartöflur o.fl. hækkað um 8,8%. Þessir undirliðir vísitölunnar hafa hækkað mest á meðan liðurinn sykur, súkkulaði og sælgæti hækkaði minnst eða um 1,7%.

Hagfræðideild Landsbankans býst við að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í febrúar og um 0,5% í apríl. Gangi spá hagfræðideildarinnar eftir verður ársverðbólgan 3,5% í apríl.

Peningastefnunefnd Seðlabankans fundar í byrjun næstu viku og verður ákvörðun nefndarinnar tilkynnt klukkan 9 á miðvikudagsmorgun. Verðbólgumælingin sem Hagstofan birti í morgun verður því síðasta mælingin sem nefndin mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun vaxta. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×