Innlent

Veitur virkja viðbragðsáætlun vegna kuldans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Afar kalt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga.
Afar kalt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Vísir/vilhelm
Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veitum. Metnotkun á heitu vatni mældist á höfuðborgarsvæðinu í dag.

„Rennslið um hitaveituæðar Veitna á höfuðborgarsvæðinu náði nýjum hæðum í dag þegar það náði 16 þúsund tonnum á klukkustund að jafnaði í sólarhring. Það er mesta notkun sem sést hefur,“ segir í tilkynningunni.

Þá gæti þurft að skerða afhendingu heitavatns til stórnotenda, gangi veðurspár eftir næstu daga. Á meðal stórnotenda eru sundlaugarnar á höfuðborgarsvæðinu en Veitur hafa verið í sambandi við rekstraraðila þeirra vegna stöðunnar sem komin er upp.

Veitur vinna nú samkvæmt viðbragðsáætlun og er fyrsti þáttur hennar að skora á fólk að fara sparlega með heita vatnið næstu daga. Viðskiptavinum verður sendur tölvupóstur og þá verður frekari athygli vakin á stöðunni með auglýsingum og tilkynningum til fjölmiðla.

„Takist okkur að draga úr notkun gæti það dugað og frekari aðgerðir reynst óþarfar,“ segir í tilkynningu. Hér að neðan má nálgast hollráð um húshitun frá Veitum:

Um 90% af hitaveituvatni eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×