Erlent

May fær umboð til að semja aftur við ESB sem virðist þó ekki vilja semja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Theresa May á þingi í dag.
Theresa May á þingi í dag. AP/Jessica Taylor
Meirihluti þingmanna breska þingsins samþykkti tillögu þess efnis að fella út svokallað „Backstop“ ákvæði úr úrsagnarsamningi Bretlands úr Evrópusambandinu. Theresa May hefur nú umboð til að semja á ný við ESB en forseti leiðtogaráðsins segir að ekki sé í boði að semja upp á nýtt.

Alls fimmtán breytingartillögur við lagafrumvarp um útgöngusamning úr Evrópusambandinu voru til umræðu á breska þinginu í dag. Meðal tillagna var að hið svokallaða „Backstop“ ákvæði yrði fellt úr samningnum.

Umrætt ákvæði um Backstop felur í sér áframhaldandi veru Bretlands í tollabandalagi ESB. Um eitt hundrað þingmenn Íhaldsflokksins kusu gegn úrsagnarsamningi May og fóru þannig gegn formanni eigin flokks vegna andstöðu við þetta ákvæði um veru Bretlands í tollabandalaginu eftir Brexit.

Backstop“ er í raun trygging fyrir því að landamærin við Írland verði eitt tollasvæði eftir útgönguna og verði í gildi þangað til að gengið hefur verið frá fríverslunarsamningi milli Bretlands og ESB eftir Brexit.

Tillagan um að fella niður ákvæðið var samþykkt með sextán atkvæða meirihluta. May hvatti þingmenn til þess að styðja tillöguna svo hún fengi umboð til þess að hefja viðræður við ESB að nýju svo hægt væri að komast að niðurstöðu varðandi hið svokallaða „Backstop“ sem meirihluti þingmanna getur unað við.

Aðeins örfáum mínútum eftir að tillagan var samþykkt gaf talsmaður Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, út yfirlýsingu þess efnis að ESB myndi ekki samþykkja breytingar á útsagnarsamningnum sem þegar lægi fyrir.

„Backstop er hluti af úrsagnarsamningnum og úrgöngusamningurinn er ekki endursemjanlegur,“ sagði í yfirlýsingunni. Hvatti Tusk May til þess að útskýra hver næstu skref yrðu af hennar hálfu og að ESB væri opið fyrir því að fresta formlegri útgöngu Bretlands úr ESB sem verður 29. mars.


Tengdar fréttir

Breska þingið fjallar um fimmtán breytingartillögur við Brexit-samning

Fimmtán breytingartillögur við lagafrumvarp um útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, úr Evrópusambandinu verða til umræðu á breska þinginu í dag. Líkurnar á því að Bretar hætti í Evrópusambandinu án samnings eru taldar aukast á hverjum degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×