Handbolti

Dagur stýrði æfingu spenntra Japana

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Dagur Sigurðsson var léttur á æfingu japanska landsliðsins í dag.
Dagur Sigurðsson var léttur á æfingu japanska landsliðsins í dag. vísir/tom
Dagur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands og þjálfari Evrópumeistara Þýskalands árið 2016, er mættur með sína stráka í japanska landsliðinu til München en Japan er í riðli með Íslandi og hefur leik á morgun gegn Makedóníu.

Dagur stýrir Japan nú í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti en hann kvaddi þýska landsliðið eftir HM í Frakklandi fyrir tveimur árum síðan. Undirbúningur liðsins miðast við Ólympíuleikana í Japan sem fara fram í ágúst á næsta ári.

Valsarinn var léttur á æfingunni sem fram fór í Ólympíuhöllinni í München þar sem að leikir B-riðils verða spilaðir og virkuðu strákarnir hans gríðarlega spenntir fyrir því að vera mættir í vöggu handboltans. Eftir æfinguna voru nokkrir fljótir að rífa upp símana og mynda allt sem fyrir augum þeirra var í þessari sögufrægu höll.

Þeir voru mest spenntir fyrir nokkrum risaskjáum þar sem japanska landsliðið var boðið velkomið til leiks á HM 2019.

Japanska liðið hafnaði í 22. sæti af 24 liðum á síðasta heimsmeistaramóti og hefur gengið misvel í undirbúningi fyrir mótið í Þýskalandi og Danmörku. Strákarnir hans dags unnu þó flottan sigur á Pólverjum í aðdraganda HM sem ætti að styrkja trú leikmannanna fyrir leikinn gegn Makedóníumönnum á morgun.

Japan ríður á vaðið á morgun klukkan 14.30 en það á fyrsta leik dagsins gegn Makedóníu. Ísland tekur svo við klukkan 17.00 þegar að það mætir Króatíu en Aron Kristjánsson, þriðji íslenski þjálfarinn í riðlinum, mætir svo Spáni með Barein í lokaleik morgundagsins.

Leikmenn Japan að taka myndir í höllinni í dag.vísir/tom
Velkomnir!vísr/tom

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×