Íslenski boltinn

Valsmenn kaupa Orra Sigurð til baka frá Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Sigurður Ómarsson.
Orri Sigurður Ómarsson. Mynd/Fésbókarsíða Vals
Orri Sigurður Ómarsson er aftur orðinn leikmaður Vals í Pepsi deild karla í knattspyrnu og mun spila með Íslandsmeisturuum í sumar.

Valur staðfestir á fésbókarsíðu sinni að félagið hafi keypt Orra Sigurð til baka frá norska félaginu Sarpsborg 08.

Orri kom til Vals frá AGF árið 2015 og varð strax einn af lykilleikmönnum félagsins. Hann varð bæði Íslands-og bikarmeistari með Val áður en félagið seldi hann til Sarpsborg 08.

„Sarpsborg 08 hreifst af frammistöðu Orra og keypti hann frá Val 2017 og nú kaupir Valur hann tilbaka,“ segir í fréttinni hjá Valsmönnum.

Orri hefur leikið 65 leiki með Val í deild og bikar en þar að auki hefur hann spilað 67 leiki með yngri landsliðum Íslands ásamt því að hafa spila fjóra A-landsleiki.

Lið Íslandsmeistara Vals er orðið svakalega vel skipað en sterkir leikmenn hafa streymt til félagsins í vetur.

Á dögunum sömdu þeir Gary Martin, Emil Lyng og Lasse Petry við Hlíðarendafélagið en áður höfðu Valsmenn samið við Birnir Snær Ingason, Garðar Bergmann Gunnlaugsson og Kaj Leó í Bartalssotvu.

Valsmenn hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö síðustu sumur og verða illviðráðanlegir í Pepsi deildinni í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×