Enski boltinn

Southgate orðaður við Manchester United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Southgate hefur gert frábæra hluti með enska landsliðið
Southgate hefur gert frábæra hluti með enska landsliðið vísir/getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, sé á óskalista forráðamanna Manchester United sem næsti framtíðarstjóri liðsins.

Jose Mourinho var rekinn rétt fyrir jól og var þá gefið út að United myndi ráða bráðabirgðastjóra út tímabilið og á meðan yrði farið vandlega að leit að nýjum framtíðarstjóra. Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær var ráðinn inn sem bráðabirgðastjóri.

Samkvæmt frétt Sky hefur United ekki haft samband við enska knattspyrnusambandið um málið en leikstíll Southgate og hvernig hann vinnur með unga leikmenn hefur sett hann á óskalista félagsins.

Southgate skrifaði fyrr í vetur undir framlengingu á samningi sínum við enska knattspyrnusambandið og er hann nú með samning út HM 2022 í Katar.

Southgate stýrði Englendingum til undanúrslita á HM í Rússlandi í sumar, besta árangri Englands í áraraðir. Þá vann liðið riðil sinn í A-deild Þjóðadeildarinnar í haust og spilar í úrslitakeppni hennar í júní.

Southgate hefur aðeins þjálfað félagslið einu sinni á ferlinum, hann var stjóri Middlesbrough á árunum 2006-2009.

Mauricio Pochettino hefur verið sagður efstur á óskalista Manchester United en Daily Mail segir forráðamenn United óttast að Argentínumaðurinn ætli sér að halda áfram hjá Tottenham og séu því farnir að horfa annað.

Þá er Zinedine Zidane einnig á óskalista United, sem og Diego Smeone, þjálfari Atletico Madrid, samkvæmt heimildum The Mirror. Solskjær hefur einnig lýst því yfir að hann hafi áhuga á að halda áfram með liðið til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×