Erlent

Segist ekkert hafa að fela

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Trump forseti.
Trump forseti. NordicPhotos/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti þvertekur fyrir að hafa leynt upplýsingum um fundi sína með Vladímír Pútín Rússlandsforseta með nokkrum hætti að því er fram kemur í erlendum miðlum.

Forsetinn tjáði sig um umræddar ásakanir í viðtali á Fox News í gær og sagðist láta sig slíkar fréttir lítið varða, hann hefði ekkert að fela.

Er forsetinn þar að bregðast við fréttum þess efnis að hann hafi að minnsta kosti fimm sinnum leynt upplýsingum um persónulega fundi með Pútín frá samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn og meðal annars haldlagt glósur frá túlki sínum í eitt skiptið.

„Ef þú lest greinina þeirra, þá sérðu að þau fundu ekki neitt,“ sagði Trump meðal annars í viðtalinu við Fox News og vísaði þar í umfjöllun New York Times, sem í fyrradag birti fyrst fréttir þess efnis að þarlend lögregluyfirvöld hefðu hafið rannsókn á Trump um leið og hann rak James Comey úr embætti yfirmanns alríkislögreglunnar.

Miðaði rannsóknin að því að komast að því hvort Trump væri að ganga erinda erlendrar ríkisstjórnar. „Þessi frétt var algjör móðgun og New York Times er ömurlegt fréttablað. Þetta er hræðilegur hlutur sem þeir sögðu.“

Aðspurður á Fox af hverju hann vildi ekki birta upplýsingar úr umræddum samtölum við Pútín, ýjaði forsetinn að því að hann væri til í að gera það.

„Ég myndi gera það. Mér er alveg sama … ég er ekki að fela neitt. Mér gæti ekki verið meira sama.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×