Erlent

Örlögin ráðast í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May.
Theresa May. Nordicphotos/AFP
Umræðu um samning ríkisstjórnar Theresu May forsætisráðherra við ESB um útgöngu Breta lýkur á breska þinginu í dag og greiða þingmenn atkvæði í framhaldinu.

Óljóst er hvernig fer fyrir samningnum. Hann virðist þó vinsælli en þegar greiða átti atkvæði um hann í desember. Þá var ljóst að meirihluti væri ekki fyrir hendi, einkum vegna varúðarráðstöfunar er varðar landamæri Írlands og Norður-Írlands, og frestaði May atkvæðagreiðslunni.

May sagði í ræðu í gær að þingið gæti lamast og traust á stjórnmálum þurrkast út verði samningurinn felldur. Þá hefur hún sagt breska þingið líklegra til að stöðva Brexit alfarið en samþykkja útgöngu án samnings. Þetta gæti gert að verkum að hörðustu Brexit-sinnarnir í Íhaldsflokknum, sem hafa ekki stutt samning May hingað til, snúist á sveif með henni. Breskum skýrendum þykir þó líklegra að samningurinn verði felldur.

Verði samningurinn ekki samþykktur fær May þrjá virka daga til að setja fram áætlun um framhaldið. Búist er við því að hún haldi þá til Brussel strax á morgun til viðræðna.

Verkamannaflokkurinn mælist vinsælli en Íhaldsflokkurinn í nýrri könnun YouGov sem birtist í gær. Nýtur stuðnings 41 prósents samanborið við 35 prósent Íhaldsflokksins. Frjálslyndir demókratar mældust með ellefu prósent. Líkur eru á að Verkamannaflokkurinn leggi fram vantraust á stjórn May verði samningurinn felldur. Flokkurinn hefur krafist nýrra kosninga undanfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×