Enski boltinn

De Gea tilbúinn að vera áfram hjá United en vill veglega launahækkun

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Gea fagnar sigrinum gegn Tottenham á sunnudag.
De Gea fagnar sigrinum gegn Tottenham á sunnudag. vísir/getty
David de Gea, spænski markvörður Manchester United, er tilbúinn að ræða nýjan samning við Manchester United en vill fá veglega launahækkun í nýja samningnum.

De Gea átti stórkostlegan leik um helgina er United vann sjötta sigurinn í röð undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. United vann 1-0 sigur á Tottenham á Wembley þar sem De Gea lokaði markinu.

Núverandi samningur Spánverjans hljóðar upp á um 200 þúsund pund á viku en nú vill Spánverjinn fá meira í sinn vasa og segja sögusagnir að hann vilji að nýi samningurinn verði um 300 þúsund pund á viku með bónusum.

Markvörðurinn og United hafa verið í viðræðum um nokkurra vikna skeið en án árangurs. United virkjaði klásúlu í samningi De Gea á dögunum sem framlengir samning hans um eitt ár og er því núverandi samningurinn til 2020.

„Við viljum halda honum,“ sagði samherji De Gea, sóknarmaðurinn Jesse Lingard. „Hann er einn besti markvörður í heimi, ef ekki sá besti,“ bætti enski landsliðsmaðurinn við.

De Gea var frábær um helgina í 1-0 sigrinum gegn Tottenham en hann varði ellefu skot í leiknum. United er í fimmta sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og Arsenal sem er sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×