Enski boltinn

„Meistaradeildin var draumur áður en Ronaldo kom en nú er það markmiðið því hann er bestur í heimi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Chiellini og Ronaldo á góðri stundu ásamt Alex Sandro.
Chiellini og Ronaldo á góðri stundu ásamt Alex Sandro. vísir/getty
Giorgio Chiellini, varnarmaður Juventus, segir að félagið hafi ekki verið tilbúinn að vinna Meistardeildina áður en Cristiano Ronaldo gekk í raðir félagsins í sumar.

Ronaldo gekk í raðir Juventus í sumar og hefur fundið sig vel fyrri hluta tímabils. Portúgalinn hefur skorað fjórtán mörk í fyrstu nítján leikjunum í ítölsku úrvalsdeildinni.

Juventus hefur komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar tvisvar á síðustu fjórum árum en þeir töpuðu í bæði skiptin fyrir Ronaldo og Real Madrid; 2015 og 2017.

„Cristiano skoraði mörgum, mörgum sinnum gegn okkur og eyðilagði drauma mína oft - í Cardiff, í Madríd, í Tórínó,“ sagði Chiellini í ítarlegu viðtali við BBC.

„Áður var Meistaradeildin bara draumur en nú er það markmiðið því Cristiano er besti leikmaður í heimi og við þurfum hann til þess að taka síðasta skrefið.“

Chiellini segir að það sé ekki bara mörk Ronaldo innan vallar sem hjálpi félaginu því utan vallar hagar hann sér eins og alvöru atvinnumaður. Það hjálpar allt til.

„Hann er með frábæra hæfileika á vellinum en einnig fyrir utan völlinn; hvernig viðhorf hann er með, hvernig hann undirbýr sig, hvernig hann hagar sér á daginn - þetta getur hjálpað okkur. Liðið hefur breytt.“

„Ég held að við séum eitt af fjórum eða fimm liðum sem getum unnið. Barcelona, Manchester City, Real Madrid og Bayern Munchen en einnig PSG og Atletico geta einnig unnið. Við erum langt frá mikilvægu leikjunum núna,“ sagði varnarmaðurinn öflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×