Fótbolti

Vieira búinn að losa sig við Mario Balotelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Vieira fer yfir hlutina með Mario Balotelli.
Patrick Vieira fer yfir hlutina með Mario Balotelli. Getty/Pascal Della Zuana
Mario Balotelli skiptir um lið í franska fótboltanum eftir ósætti við knattspyrnustjóra sinn hjá Nice.

Ítalski framherjinn Mario Balotelli mun klára tímabilið með Marseille en samningur hans við Nice átti að renna út í vor.

Ósætti milli Mario Balotelli og knattspyrnustjórans Patrick Vieira hefur orsakað það að Balotelli hefur ekki spilað með Nice síðan 4. desember.  Nú hefur Frakkinn losað sig við hinn litríka Balotelli.





Patrick Vieira endaði ferill sinn hjá Manchester City vorið 2011. Þeir Mario Balotelli voru liðsfélagar bæði hjá Internazionale og Manchester City. Vieira kannaðist því vel við kauða.

Mario Balotelli virtist vera loksins búinn að finna sér samastað í Nice þar sem hann skoraði 33 mörk í fyrstu 51 deildarleikjum sínum. Það breyttist aftur á móti þegar Patrick Vieira settist í stjórastólinn síðasta sumar.

Á þessu tímabili er Balotelli markalaus í tíu deildarleikjum og í september missti hann sæti sitt í ítalska landsliðinu.

 

Balotelli hefur verið á miklu flakki á sínum ferli frá því að hann yfirgaf Manchester City á miðju 2012-13 tímabilinu.

Hann fór til AC Milan, svo til Liverpool, aftur til AC Milan og svo til Nice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×