Körfubolti

Harden fékk enga hjálp við að skora 115 stig í tveimur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden.
James Harden. Getty/Tim Warner
James Harden er gjörsamlega óstöðvandi þessa dagana en kappinn er búinn að skora 57 og 58 stig í síðustu tveimur leikjum sínum í NBA-deildinni.





Harden setti þar með nýtt persónulegt met á tímabilinu í tveimur leikjum í röð en þeir komu í næstu tveimur leikjum eftir að hann klikkaði á sextán þriggja stiga skotum (af sautján) í einum leik.

Með því að skora 115 stig í tveimur leikjum þá komst Harden í hóp með þeim Kobe Bryant og Michael Jordan.





Michael Jordan, Kobe Bryant og James Harden eru nú einu leikmennirnir á síðustu fimmtíu árum sem hafa náð að skora svo mörg stig í tveimur leikjum í NBA-deildinni.





James Harden skoraði 57 stig í 18 stiga sigri á Memphis Grizzliers þar sem hann hitti úr 17 af 33 skotum (52%) og 6 af 15 þriggja stiga skotum (40%). Hann nýtti líka 17 af 18 vítum sínum (94%). Auk stiganna þá var hann með 9 fráköst og 2 stoðsendingar.

James Harden skoraði síðan 58 stig í 3 stiga tapi á móti Brooklyn Nets þar sem hann hitti úr 16 af 34 skotum (47%) og 5 af 19 þriggja stiga skotum (26%). Hann nýtti líka 21 af 23 vítum sínum (91%). Auk stiganna þá var hann með 10 fráköst og 6 stoðsendingar.

Það fylgir sögunni að Harden bjó sjálfur til öll þessi 115 stig því enginn liðfélagi hans í Houston náði að gefa stoðsendingu á hann í þessum tveimur leikjum. Ef eitthvað er ótrúleg tölfræði þá er það sú staðreynd.





Michael Jordan skoraði 69 stig og 49 stig í leikjum sínum 28. og 30. mars árið 1990 en Kobe Bryant var með 37 stig og 81 stig í leikjum sínum 20. til 22. janúar 2006. Báðir voru þeir því með 118 stig samanlagt.

Jordan nýtti 43 af 71 skoti sínu í leikjunum tveimur (61%) og skoraði 29 stig af vítalínunni en Kobe Bryant nýtti 40 af 79 skoti sínu í leikjunum tveimur (51%) og skoraði 27 stig af vítalínunni. Harden nýtti 33 af 67 skotum sínum í þessum tveimur leikjum (49%) og 38 stiga hans komu af vítalínunni.

Harden gaf 8 stoðsendingar með 115 stigum, Jordan gaf 10 stoðsendingar með sínum 118 stigum og Kobe var með 8 stoðsendingar með sínum 118 stigum.

Þrátt fyrir þessa frammistöðu þá var Harden mjög pirraður í leikslok enda tapðist leikurinn. Hér fyrir neðan sést hann strax eftir leik.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×