Innlent

Bíl­þjófur reyndi að flýja lög­reglu og fela sig undir öðrum bíl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ökumaður bílsins, og sá sem hafði stolið honum, var ekki á þeim buxunum að stöðva för sína þegar lögreglumenn komu á vettvang og ók rakleiðis áfram.
Ökumaður bílsins, og sá sem hafði stolið honum, var ekki á þeim buxunum að stöðva för sína þegar lögreglumenn komu á vettvang og ók rakleiðis áfram. vísir/vilhelm
Stolinn bíll sem lögregla lýsti eftir í gær er kominn í leitirnar samkvæmt færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að það hafi ekki síst verið fyrir árvekni borgara sem bíllinn fannst en sá tilkynnti um að bíllinn væri í austurhluta borgarinnar.

Ökumaður bílsins, og sá sem hafði stolið honum, var ekki á þeim buxunum að stöðva för sína þegar lögreglumenn komu á vettvang og ók rakleiðis áfram.

„Úr varð stutt eftirför uns bílþjófurinn nam staðar, en þá reyndi hann að komast undan á tveimur jafnfljótum og síðan að fela sig undir annarri bifreið skammt frá. Þar var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð, en þess má geta að hann hafði þegar verið sviptur ökuleyfi,“ segir í færslu lögreglunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×