Handbolti

Íslenski veggurinn var bara í „einhverju zone-i“

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Arnar Freyr sáttur og sæll á æfingu gærkvöldsins.
Arnar Freyr sáttur og sæll á æfingu gærkvöldsins. vísir/tom
Arnar Freyr Arnarsson var brosið eitt þegar að Vísir ræddi við hann fyrir æfingu íslenska landsliðsins í gær enda ekki annað hægt en að hlakka til leiksins í kvöld á móti Þýskalandi.

Strákarnir okkar lentu í Köln klukkan 14.00 í gær og æfðu um 19.00 en þeir voru allan daginn búinn að undirbúa sig fyrir stórleikinn á móti gestgjöfunum sjálfum.

„Mér líður bara mjög vel. Það var smá hvíld í dag sem var gott. Við erum búnir að fara vel yfir hlutina og höldum áfram að undirbúa okkur fyrir þennan stórleik,“ segir Arnar Freyr.

Línu- og varnarmaðurinn var hreint magnaður á móti Makedóníu og var eins og mennskur veggur. Hann var efstur í löglegum stöðvunum með níu stykki og gerði hreinlega grín að stórskyttum Makedóníumanna og línumönnum þeirra.

„Ég veit ekki alveg hvað gerðist. Ég var bara í einhverju zone-i. Það var mikið undir því ef við hefðum ekki unnið hefðum við ekki komist áfram. Maður gerir bara allt fyrir Ísland. Þannig bara er maður,“ segir Arnar Freyr sem skoraði tvö falleg mörk í leiknum en hann vill meira þeim megin á vellinum.

„Ég á enn þá meira inni í sóknarleiknum. Vonandi fæ ég bara marga bolta á móti Þýskalandi. Svona er þetta bara stundum. Það getur verið erfitt að finna línuna en við erum búnir að fara yfir þetta,“ segir Arnar Freyr.

Stóri strákur er svo sannarlega ekki einn í vörninni. Stórmótanýliðinn Elvar Örn Jónsson hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í bakverðinum og Arnar er hrifinn.

„Hann er í geggjuðu formi. Hann er ekki sá stærsti en hann hefur mikinn kraft og er í góðu standi. Það er mikið talað um hæð og eitthvað þannig en hann er bara í rosalega góðu formi og það mun fleyta honum langt í þessari baráttu við svona alvöru línumenn og skyttur,“ segir Arnar Freyr sem er ekkert smeykur fyrir kvöldinu.

„Alls ekki. Þetta er bara geðveikt. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu. Ég finn meira fyrir tilhlökkun en kvíða. Við getum alveg unnið þessa Þjóðverja ef við náum að spila okkar leik,“ segir Arnar Freyr Arnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×