Handbolti

Sérfræðingurinn: Er aldrei reiður yfir því að þeir gefi ekki allt í leikinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson spilaði stórt hlutverk í dag
Gísli Þorgeir Kristjánsson spilaði stórt hlutverk í dag vísir/epa
Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports, sagðist stoltur af íslenska liðinu þrátt fyrir fimm marka tap gegn Þýskalandi á HM í handbolta í dag. Ungt íslenskt lið gaf allt í leikinn.

„Fyrstu viðbrögð eru að maður er stoltur og ánægður. Þessir strákar láta mann aldrei finna fyrir því að þeir séu ekki að gefa allt í þetta, maður er aldrei reiður eða brjálaður yfir því að þeir séu ekki að gera allt sem þeir geta.“

„Eins og staðan er núna þá erum við bara 4-7 mörkum á eftir þessum bestu þjóðum, sem er bara mjög eðlilegt. Þessir litlu hlutir sem telja svo mikið, við erum ekki að fá mikið af einföldum hraðaupphlaupsmörkum sem hafa verið einkennismerki Guðjóns Vals. Við höfum mikið fyrir öllum mörkum og gerum mikið af tæknimistökum og þá aðallega slæmar línusendingar.“

Lítil skotógn á móti einni bestu vörn heims
Jóhann Gunnar Einarsson.s2 sport
„Við áttum rosalega erfitt sóknarlega. Við erum að spila á móti einni bestu vörn í heimi, það sást í leik Þýskalands og Frakka að þeir eru frábærir í vörn og með einn besta markmann í heimi.“

Íslenska liðið var með mikið af töpuðum boltum, þeir voru komnir hátt á annan tug, og skotnýting liðsins var einkar slæm í dag.

„Við náum ekki að ógna í skotum og þá förum við sjálfkrafa að leita að línunni. Þjóðverjarnir leiddu okkur í slæmar línusendingar og refsuðu.“

„Byrjunarliðsvörnin hjá Þýskalandi ásamt markverðinum, þar erum við með fjóra hjá Kiel, svo það er erfitt fyrir Gísla Þorgeir því þeir þekkja hann inn og út. Hann getur ekki enn skotið fyrir utan og þarf að treysta á að brjótast í gegn og það var erfitt fyrir hann.“

„Til að klára þetta neikvæða þá er hægri skyttustaðan búin að vera sú slakasta hjá okkur og þeir hafa ekki fundið sig því miður. Þeim til varnar þá ganga kerfin svolítið út á að þeir leysi inn og ég veit ekki hvort það sé ástæðan fyrir því að þeir séu ekki að finna sig.“

Frábær vörn sem brotnaði aldrei„Þrátt fyrir þetta þá erum við í hörku leik, komum alltaf til baka og brotnum aldrei. Þetta er langstærsti leikurinn sem margir af þessum leikmönnum hafa spilað, sérstaklega þeir sem eru enn í Olísdeildinni eða nýfarnir út, að spila fyrir framan stútfulla höll í Köln er risastórt, frábær upplifun og lífsreynsla fyrir þá.“

Ólafur Gústafsson og Elvar Örn Jónsson stóðu vörnina vel gegn stórum og sterkum Þjóðverjumvísir/getty
„Ég verð að hrósa vörninni, hún var frábær í síðustu tveimur leikjum. Þar eru augljós batamerki frá því í byrjun móts og frábært að sjá hvað Gummi er búinn að vinna vel.“

Hver var bestur í íslenska liðinu í dag?

„Arnór var frábær á meðan hann var inn á, hann er að verða mjög traustur og stabíll. Aron líka á meðan hann spilaði.“ Bæði Arnór Þór Gunnarsson og Aron Pálmarsson horfðu á mest megnið af seinni hálfleiknum vegna meiðsla.

„Svo er það bara varnarlínan. Ég vil hrósa Óla [Gústafssyni] og Arnari Frey, fannst þeir frábærir. Maður sá það að síðustu tíu fór aðeins að leka enda eðlilegt, Þjóðverjarnir eru gríðarlega stórir og sterkir, en heilt yfir voru þeir samt frábærir. Því miður var enginn sem átti frábæran leik í sókninni, Óli Guðmunds dró vagninn í seinni hálfleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×