Handbolti

Kristján með fleiri sigra en allir hinir íslensku þjálfararnir til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Andrésson og strákarnir hans í sænska landsliðinu hafa unnið alla sex leiki sína á HM í handbolta til þessa.
Kristján Andrésson og strákarnir hans í sænska landsliðinu hafa unnið alla sex leiki sína á HM í handbolta til þessa. EPA/JUANJO MARTIN
Kristján Andrésson hefur stýrt Svíum til sigurs í öllum sex leikjunum á HM í handbolta en Svíar unnu tólf marka sigur á Túnis í fyrsta leik sínum í milliriðli í dag.

Þetta þýðir að Kristján er núna með fleiri sigra á þessu heimsmeistaramóti en allir hinir fjórir íslensku þjálfararnir til samans.

Kristján er með sex sigurleiki en hinir fjórir, Guðmundur Guðmundsson (3 sigrar), Aron Kristjánsson (1 sigur), Patrekur Jóhannsson (1 sigur) og Dagur Sigurðsson (0 sigrar) hafa aðeins náð að vinna fimm leiki samanlagt.

Ísland tapaði 24-19 á móti Þýskalandi í fyrsta leik sínum í milliriðli og allir þrír íslensku þjálfararnir í Forsetabikarnum töpuðu í dag.

Patrekur Jóhannsson og lærisveinar í Austurríki töpuðu 24-22 á móti Argentínu, Aron Kristjánsson og strákarnir hans í Barein töpuðu 32-27 á móti Serbíu og Japanar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, töpuðu sínum sjötta leik í röð, nú 27-25 á móti Kóreu.

Svíar unnu leiki sína í riðlinum en þeir voru á móti Egyptalandi (+3, 27-24), Argentínu (+15, 31-16), Angóla (+18, 37-19), Katar (+1, 23-22) og Ungverjalandi (+3, 33-30). Liðið vann síðan 35-23 sigur á Túnis í dag.

Svíar hafa þar með unnið þessa sex leiki sína með samtals 52 marka mun. Markatalan hjá hinum fjórum íslensku þjálfurunum á heimsmeistaramótinu er hins vegar -147 en Guðmundur Guðmundsson (+8) er sá eini af hinum fjórum sem er í plús.

Kristján og Svíar hvíla á morgun en hinir fjórir íslensku þjálfararnir verða í eldlínunni. Ísland mætir Frakklandi í milliriðli, Austurríki mætir Barein í leiknum um 19. sæti og Japan spilað við Angóla um 23. sætið. Það detta því vonandi inn fleiri sigrar hjá íslensku þjálfurunum á morgun.

Íslensku þjálfararnir á HM í handbolta 2019:

Kristján Andrésson, Svíþjóð

6 sigrar í 6 leikjum (Markatalan +52)

Hinir fjórir íslensku þjálfararnir

5 sigrar í 24 leikjum (Markatalan -147)

Guðmundur Guðmundsson, Íslandi

3 sigrar í 6 leikjum (Markatalan +8)

+

Patrekur Jóhannsson, Austurríki

1 sigur í 6 leikjum (Markatalan -29)

+

Aron Kristjánsson, Barein

1 sigur í 6 leikjum (Markatalan -49)

+

Dagur Sigurðsson, Japan

0 sigrar í 6 leikjum (Markatalan -28)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×