Erlent

Trump lýsti stuðningi við innrás Sovétríkjanna í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump lét móðan mása um allt milli himins og jarðar á hátt í tveggja tíma löngum fundi í gær.
Trump lét móðan mása um allt milli himins og jarðar á hátt í tveggja tíma löngum fundi í gær. Vísir/EPA
Sovétmenn gerðu rétt með því að ráðast inn í Afganistan árið 1979 að mati Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Á furðulegum ríkisstjórnarfundi fyrir framan fréttamenn reyndi Trump að nota stríðsrekstur Sovétríkjanna í Afganistan sem réttlætingu til að draga herlið Bandaríkjanna frá landinu.

Ummæli Trump og söguskýring um innrás Sovétmanna í Afganistan í gær hefur vakið furðu, ekki síst þau að Sovétríkin hafi haft réttmæta ástæðu fyrir henni. Bandaríkjastjórn í forsetatíð Ronalds Reagan studdi íslamska uppreisnarmenn sem Rauði herinn reyndi að hjálpa marxískum bandamönnum sínum í Afganistan að berja niður.

„Ástæðan fyrir því að Rússland var í Afganistan var sú að hryðjuverkamenn voru að fara til Rússlands. Það var rétt hjá þeim að vera þarna. Vandamálið var að þetta var erfið barátta og þau fóru bókstaflega á hausinn, þau fóru út í að vera kölluð Rússland aftur í staðinn fyrir Sovétríkin,“ sagði Trump sem virtist með samanburðinum reyna að færa rök fyrir ákvörðun sinni um að fækka verulega í herliði Bandaríkjanna í Afganistan.

Washington Post bendir á að sú söguskýring að stríðsreksturinn í Afganistan hafi valdið falli Sovétríkjanna sé meira en lítið vafasöm. Þó að sagnfræðingar telji stríðið hafa átt þátt í að Sovétríkin liðu undir lok tveimur árum eftir að því lauk þá fari því fjarri að það hafi verið aðalorsökin.

Aðrir efnahagslegir þættir, þar á meðal lækkandi olíuverð á 9. áratugnum og pólitískar og efnahagslegar umbætur, hafi haft mun meiri áhrif á fjárhag Sovétríkjanna en Afganistanstríðið.

Fullyrðing Trump um að ástæðan fyrir því að Sovétmenn réðust inn í Afganistan hafi verið að stöðva för hryðjuverkamanna þaðan til Rússlands er heldur ekki sögð standast skoðun.

„Óforskömmuðustu áróðursmeistarar Sovétríkjanna héldu því aldrei fram að afganskir hryðjuverkamenn réðust á Rússland. Maður getur lesið alla sovéska fjölmiðla frá 9. áratugnum og aldrei fundið neitt svona fáránlegt,“ segir Barnett Rubin, sérfræðingur í málefnum Afganistans við Háskólann í New York.


Tengdar fréttir

Segist í raun hafa rekið Mattis

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist í raun hafa rekið James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mattis sagði að af sér í síðasta mánuði vegna þess hann deildi ekki sömu heimsmynd og forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×